Nýverið voru kynntar tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Verðlaunin hafa verið veitt árlega í yfir þrjá áratugi fyrir framúrskarandi fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Tíu bækur eru tilnefndar ár hvert og hlýtur ein þeirra Viðurkenningu Hagþenkis við hátíðlega athöfn í mars. Sagnfræðingar eru hlutskarpir að þessu sinni en tilnefndir eru:
Árni Daníel Júlíusson, fyrir bókina Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Vönduð sagnfræðirannsókn og frumleg framsetning býður lesandanum í spennandi tímaferðalag aftur til lítt þekktra alda Íslandssögunnar.“
Axel Kristinsson, fyrir bókina Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Sögufélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Ögrandi söguskoðun og eftirtektarverður frásagnarstíll höfundar mynda öfluga heild.“
Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, fyrir bókina Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Faglega fléttað verk byggt á hárfínni heimildavinnu um sögu starfsgreinar þar sem sjónum er ekki síst beint að ólíkri kynjamenningu.“
Kristín Svava Tómasdóttir, fyrir bókina Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Sögufélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni.“
Sverrir Jakobsson, fyrir bókina Kristur. Saga hugmyndar. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Umsögn viðurkenningarráðs: „Fróðleg og sannfærandi framsetning á því hvernig hugmyndir manna um Krist þróuðust og breyttust gegnum aldirnar í meðförum þeirra sem á hann trúðu.“