„Sagnfræðingar geta verið stórhættulegir ef þeir eru ekki í sannleiksleit,“ sagði Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita í sagnfræði, á 50 ára afmælismálþingi Sagnfræðingafélags Íslands. „Þegar vel tekst til þá náum við að hreyfa við samferðafólki okkar,“ sagði Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við sama tækifæri.
Fjöldi fólks mætti í afmælisveislu félagsins sem haldin var á Hótel Borg 30. september. Afmælisterta, fordrykkur (og nokkrir aukalega) og hvert stórskemmtilega erindið á fætur öðru flutt af sagnfræðingum með fjölbreyttan bakgrunn voru í boði.
Sagnfræðingafélag Íslands var stofnað 30. september 1971, fimmtán árum eftir að fyrsta tilraunin var gerð til að stofna félagsskap íslenskra sagnfræðinga. 50 árum síðar upp á dag var haldið upp á afmælið í þétt setinni Karólínusvítu Hótel Borgar.
Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti ávarp í upphafi málþingsins og naut þess augljóslega að vera komin í félagsskap fræðasystkina sinna þrátt fyrir tímabundna útlegð hans úr fræðaheiminum. Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita, hélt svo erindi, leit yfir salinn og sá að hún hafði kennt flestum eða öllum sem þar sátu. Flosi Þorgeirsson, annar umsjónarmaður hlaðvarpsins Draugar fortíðar sagði það kost í sínu hlutverki að vera sagnfræðimenntaður. Hann kvaðst þó líta á sig sem sagnfræðara frekar en sagnfræðara. Helga Maureen Gylfadóttir, deildarstjóri miðlunar og fræðslu á Borgarsögusafni, sagði að samtíminn líkt og sagan væru efniviður safnanna. „Það var mikill sigur fyrir safnið þegar Helvítis fokking fokk skiltið kom til okkar til dæmis, og Icesave bollinn sem við fundum.“ Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, rifjaði upp störf sín í stjórn Sagnfræðingafélagsins, hafandi tekið við gjaldkerastarfinu af Guðna Th. Líkt og aðrir sagði hún gaman að fást við sagnfræði. Hún sagði afraksturinn af störfum sagnfræðinga og flóknum og áleitnum spurningum þeirra vera óbeinan og óáþreifanlegan: „[Sagnfræðin] er ekkert sérstaklega arðbær og hún bjargar ekki mannslífum.“