Skip to main content

Tilvonandi sagnfræðingar með MA-próf segja frá rannsóknum sínum og MA-ritgerðum sem þau skiluðu af sér nýlega. Haldin verður málstofa fimmtudaginn 16. maí í Gimli 102 kl. 16:00–17:30. Allir velkomnir.
Dagskráin verður sem hér segir:
Agnes Jónasdóttir – kl. 16–16:30
„„Eigum við að eftirláta hernum stúlkubörnin?”: Ástandið á mörkum löggæslu og barnaverndar.“
Viðfangsefni þessarar rannsóknar eru sértækar aðgerðir ríkisins vegna „ástandsins“ svo sem eftirlit með ungmennum, lagasetningar, stofnun ungmennadómstóls og stofnun sérstakra vistheimila til að vista stúlkur sem voru í „ástandinu“. Í þessari rannsókn var lögð sérstök áhersla á framkvæmd laga um eftirlit með ungmennum og með hvaða hætti barnaverndarnefnd kom að opinberu eftirliti og afskiptum af „ástandinu“. Viðfangsefnið var nálgast með aðferðir kynjasögunnar í huga og þá sérstaklega með kenninguna um samtvinnun að vopni. Samtvinnun er aðferðafræðileg nálgun sem á rætur sínar að rekja til kynjafræðinnar og feminískrar baráttu. Nálgunin gengur út á að skoða hvernig áhrifaþættir svo sem kyn, aldur, stétt og fleira blandast saman og skapa sérstaka stöðu einstaklingsins í samfélaginu.
Bjartur Logi Fránn Gunnarsson – 16:30–17:00
„Íslenskir annálar: Sjónarhorn og áhrifavaldar“
Í ritgerðinni er tekist á við spurningar um mismunandi sjónarhorn íslenskra annála. Rannsóknarspurningar ritgerðarinnar eru eftirfarandi: Hvernig endurspeglast mismunandi sjónarhorn í annálum? Hvaða máli skiptir afstaða þeirra sem rituðu
annála og þeirra sem stóðu að baki ritun þeirra? Hverjir höfðu áhrif á annálaritun? Fyrst er fræðileg saga rannsókna á íslensku annálunum skoðuð og mismunandi kenningar fræðimanna um þá bornar saman.
Brynhildur Lea Ragnarsdóttir – 17:00–17:30
Lífið í prófíl Fyrstu átján ár Leu Kristjánsdóttur
Lífið í prófíl er einsögurannsókn með kvenna- og kynjasögulegu ívafi þar sem ég notast við ævisöguformið til þess að varpa ljósi á stöðu ungrar konu, innan hinnar íslensku samfélagsgerðar, á fyrri hluta 20. aldar. Það er spennandi kostur að geta nálgast viðfangsefni fortíðarinnar í gegnum persónulegar upplifanir, þegar það er hægt, og hika ég ekki við að taka það skref í þessari ritgerð. Rannsóknin byggist því ekki eingögnu á minningum ömmu Leu heldur einnig mínum eigin, barna hennar og annarra fjölskyldumeðlima sem leyfðu mér að heyra þeirra hlið á liðnum atburðum.