Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 16. mars klukkan 20. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum heldur Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur og annar stjórnenda hlaðvarpsins Draugar fortíðar, erindi.

Fundurinn verður haldinn í fyrirlestrasal Landsbókasafns.

Við hvetjum alla félaga til að mæta.

Tillögur stjórnar að lagabreytingum fyrir aðalfund 2023

Fyrsta grein

Fjórða setning 6. greinar laga (um aðalfund) orðist svo:

Til hans skal stjórn félagsins boða með opinberri auglýsingu (svo sem á samfélagsmiðlum, heimasíðu, gegnum póstlista félagsins eða í fjölmiðlum) með minnst 10 daga fyrirvara.

Núhljóðandi: Til hans skal stjórn félagsins boða með opinberri auglýsingu (s.s. í fréttabréfi, gegnum póstlista félagsins eða í fjölmiðlum) með minnst 10 daga fyrirvara.

Önnur grein

Fimmta setning 6. greinar laga (um aðalfund) orðist svo:

Formaður lýsir eftir framboðum til fundarstjóra og fundarritara aðalfundar sem að loknu kjöri taka við fundarstjórn og ritun fundargerðar.

Núhljóðandi: Formaður lýsir eftir framboðum til fundarstjóra aðalfundar sem að loknu kjöri tekur við fundarstjórn.

Þriðja grein

Skipting lögbundinna embætta í 8. grein laga breytist sem hér segir:

Stjórn skipa sjö félagsmenn: Formaður, varaformaður, ritari (sem jafnframt er skjalavörður félagsins), gjaldkeri, ritstjóri miðla og tveir meðstjórnendur.

Núverandi skipting er:

Stjórn skipa sjö félagsmenn:

  • Formaður
  • Varaformaður
  • Ritari, sem jafnframt er skjalavörður félagsins
  • Gjaldkeri
  • Vefstjóri
  • Ritstjóri fréttabréfs
  • Meðstjórnandi.


Um aðalfund segir í lögum Sagnfræðingafélags Íslands:
6. grein
Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Fundinn skal halda í mars ár hvert. Komi upp slíkar aðstæður í þjóðfélaginu að ekki reynist unnt að halda hann í mars skal aðalfundur haldinn svo fljótt sem auðið er. Til hans skal stjórn félagsins boða með opinberri auglýsingu (s.s. í fréttabréfi, gegnum póstlista félagsins eða í fjölmiðlum) með minnst 10 daga fyrirvara. Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:

Formaður lýsir eftir framboðum til fundarstjóra aðalfundar sem að loknu kjöri tekur við fundarstjórn.

Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár
Lagabreytingar (sbr. 9. grein).
Kjör stjórnar (sbr. 8. gr.). Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
Önnur mál.

Áður en fundur er settur skulu liggja frammi gögn þess efnis að til fundarins hafi verið löglega boðað. Ef áhöld eru um að rétt hafi verið staðið að fundarboði, skal kjörinn fundarstjóri skera úr um lögmæti fundarins. Fundarstjóri skal fylgja  almennum venjum um fundarsköp. Einungis félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti í öllum málum nema þeim sem lúta að breytingum á lögum félagsins (sbr. 9. gr.). Ársskýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar skulu birtir í fréttabréfi og/eða á heimasíðu félagsins. Halda skal fundargerð um aðalfund og skal fundarstjóri staðfesta hana með undirskrift sinni.