Skip to main content

Þrengt er að sögukennslu en hún felur samt í sér margvísleg tækifæri. Um þetta voru flestir sammála sem tóku til máls á fundi Sagnfræðingafélags Íslands um sögukennslu sem haldinn var í Neskirkju 28. febrúar. Fjórar framsögur voru haldnar og fjöldi fólks tók til máls með spurningum og athugasemdum.

Tilvistarbarátta

„Okkur dylst ekki að sagan er ein af þeim kennslugreinum sem eru í harðri baráttu fyrir tilveru sinni,“ sagði Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún nefndi meðal annars að með styttingu náms til stúdentsprófs hefði vægi sögukennslu í kjarna minnkað og dregið hefði úr vali nemenda.

Sögukennsla er vel til þess fallin að efla alls kyns færni sem gegnist nemendum á mörgum sviðum, sagði Súsanna Margrét. Þar á meðal væri heimildarýni, orsök og afleiðing, ólík sjónarhorn og sögulegt mikilvægi. Sögukennsla væri vel til þess fallin að kenna gagnrýna hugsun.

Engin ný námsbók í 16 ár

Auður Björgúlfsdóttir, formaður Félags sögukennara, ræddi mikinn skort á námsefni. Hún nefndi að þau sextán ár sem hún hefur kennt sögu hefur engin ný kennslubók í greininni komið út á íslensku. Líkt og Súsanna Margrét og fleiri lagði hún út af minnkandi vægi sögu í framhaldsskólum. „Nemandi getur tekið stúdentspróf af bóknámsbraut í nokkrum skólum án þess að taka sögu,“ sagði Auður. Ástæðan er sú að skólar fá að móta námsbrautir sínar og ráðuneyti málaflokksins hefur samþykkt brautarlýsingar þar sem engin saga er í kjarna.

Auður sagðist ekki verða vör við neikvætt viðhorf nemenda til sögu þó þeim þyrfti stundum sem lesa þyrfti mikið. Hins vegar gerði minnkandi val að verkum að nemendur ættu erfiðara með að velja sögu.

Sögukennarar eru fljótir að tileinka sér nýjungar sagði Auður og tók fram að kennsluhættir væru að breytast.

Afskiptaleysisstefna

„Ég er búinn að bíða eftir svona fundi í mörg ár,“ sagði Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann sagði að nýnemar í sagnfræði kæmu mjög misjafnlega undirbúnir fyrir námið, sumir hefðu tekið alla áfanga sem væru í boði í þeirra skólum en aðrir fáa eða enga. Guðmundur lýsti því hvernig dregið hefði verið úr vægi yfirlitsnámskeiða í sagnfræðinni undanfarin ár en nefndi að ef til vill hefði verið ráðlegra að auka það. Ástæðan væri sú að margir nemendur hefðu ekki góða yfirsýn á söguleg tímabil og hefðu sögulegar staðreyndir ekki á hreinu.

Guðmundur sagði það mikla brotalöm þegar kæmi að námsefnisgerð að afskiptaleysisstefna væri ráðandi í efnisinnihaldi sögukennslu í námskrá. Sú stefna valdi því að heildarsýn skorti og vinnubrögð séu ómarkviss. „Ábyrgðinni er varpað yfir á kennarana og þeir hafa frjálsar hendur.“ Guðmundur bar Ísland saman við Danmörku og Holland þar sem námskráin felur í sér mun nákvæmari fyrirsögn um hvað skuli kenna. Hann sagði að þetta væru öfgar til sitt hvorrar áttar. Best væri að fara millileið og tiltók hann England sem gott dæmi um slíka leið.

Fjölbreyttar leiðir í boði

Bjarni Ólafsson, sögukennari í Fjölbrautaskólanu í Breiðholti, ræddi hvaða aðferðir væru best fallnar til kennslu og hvaða markmið ætti að leggja áherslu á. Sögukennslan er góð leið til að kenna gagnrýna hugsun, sagnfræðileg vinnubrögð og ígrundun, sagði Bjarni. Þetta mætti gera með margvíslegum leiðum og fjölbreyttum verkefnum þar sem reyni á sköpunargáfu nemenda. Að auki væri kjörið að gefa nemendum færi á að vinna með frumheimildir. Hann sagði sína reynslu af námi í grunn- og framhaldsskóla vera þá að mest áhersla væri lögð á staðreyndakennslu. Það væri enda einfaldasta leiðin.

Eins og fleiri framsögumenn og gestir gerði Bjarni kennsluefni að umræðuefni. Hann sagði ekki nóg með að bækurnar væru gamlar heldur væri tungumálið í þeim fornt, þannig að nemendur nútímans ættu oft erfitt með að skilja þær. Að auki væri almennt bara tiltekin ein söguskýring í bókum en nemendum ekki gefið færi á að skoða fleiri nálganir.

Miklar umræður

Fundurinn stóð í hátt í þrjá klukkutíma, ekki síst vegna þess að fjörugar umræður sköpuðust eftir hvert og eitt erindi. Margir sögukennarar voru í salnum og ræddu meðal annars hvernig hægt væri að beita margvíslegum aðferðum við kennslu. Umræða skapaðist milli þeirra og skjalavarða og annarra sagnfræðinga um hvernig skjalasöfnin gætu lagt sitt af mörkum til sögukennslu, svo sem með því að gera frumheimildir aðgengilegar til kennslu.

Hugur var í fólki þrátt fyrir að við blasti sú alvara að dregið hafi verið úr sögukennslu á liðnum árum og jafnvel enn setið um einstaka söguáfanga þar sem skólastjórnendur leita leiða til að gera öðru námsefni hærra undir höfði.