Skip to main content

Ályktun Sagnfræðingafélags Íslands vegna hugmynda meirihluta borgarstjórnar að leggja Borgarskjalasafn niður í núverandi mynd.

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands lýsir yfir andstöðu við hugmyndir meirihluta borgarstjórnar um að leggja Borgarskjalasafn niður í núverandi mynd og færa lögbundna starfsemi þess undir Þjóðskjalasafn.

Ekki er ætlunin að kasta rýrð á getu Þjóðskjalasafns til að sinna verkefninu vel, enda er rekstur héraðsskjalasafna undir faglegu eftirliti þess. Það væri hins vegar afturför ef stærsta sveitarfélag landsins yrði fyrst til að leggja niður eigið skjalasafn og missa þannig mikilvæga starfsemi Borgarskjalasafns.

Þá er meinlegt að þetta sé gert án samráðs við borgarskjalavörð eða aðra fagmenn. Mikilvægt er að draga ekki úr getu til varðveislu og miðlunar sögunnar, ekki síst á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta.

Því þarf að gæta þess að söfn og menningarstofnanir á borð við Borgarskjalasafn lendi ekki undir niðurskurðarhníf stjórnvalda. Þess utan verður ekki séð að verulegir fjármunir sparist við þessa ráðstöfun en héraðsskjalasöfn njóta lögum samkvæmt styrks úr ríkissjóði samkvæmt því sem er ákveðið í fjárlögum hverju sinni.

Því skorar stjórn Sagnfræðingafélags Íslands á borgarstjórn að hverfa frá áformum um að leggja niður Borgarskjalasafn. Þess í stað verði efnt til samráðs um framtíð þess við fagfólk á sviði safnareksturs, skjalavörslu og sagnfræði.

Reykjavík 18. febrúar 2023

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands