Skip to main content

Fimmtudaginn 22. mars heldur Sagnfræðingafélag Íslands aðalfund sinn á þriðju hæð Þjóðskjalasafns Íslands, kl. 19:00.
Dagskráin hljóðar svo:
1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Lagabreytingar.
5. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
6. Önnur mál.
Að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar.
Kl. 20:00 flytur Ólafur Rastrick erindi sitt „Spilling og betrun: Menning sem félagslegt stjórntæki á árunum  milli stríða“.
Í erindinu verður fjallað um hugmyndir um áhrif fegurðar á einstakling og samfélag á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar og hvernig þær gengu inn í pólitíska stefnumótun á sviði menningarmála. Rætt verður um hvernig betrunaráhrif fagurra lista voru álitin skapa grundvöll siðferðilegar framþróunar og siðmenningar um leið og önnur form lista og menningartjáningar voru skilgreind sem ómenning. Þannig verður vikið að því hvernig sú umbótasýn sem lá til grundvallar markmiðum og úfærslu íslenskrar menningarstjórnmála byggði á tilvísun til andhverfu sinnar – til hinna „menningarlegu spilliefna“ sem ráku á fjörur landsmanna meðal annars í formi amerískra reyfara, framsækinnar myndlistar og bókmennta, djassdans og -tónlistar, kvikmynda og áfengis. Í því samhengi verður gerð grein fyrir því hvernig lesa má afskipti stjórnvalda af menningarlífinu á þessum árum sem dæmi um „mjúka“ stjórnsýslu er beindist að því að hafa áhrif á sjálfsmótun íbúanna og menningarlega stöðu íslensks samfélags í samfélagi menningarþjóða.