Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 20. mars, flytur Hulda Proppé erindi sitt „Mannfræði minninga – endursköpun fortíðar í nútíð: Hvernig sjá bandarískir sérfræðingar í málefnum Sovétríkjanna á tímum kalda stríðsins störf sín í sögulegu, menningarlegu og pólitísku samhengi?“ í hádegisfyrirlestraröðinni Hvað eru minningar?

Minni hefur í síauknum mæli verið viðfangsefni mannfræðinga. Áhugi á minni og minningum innan mannfræðinnar kemur ekki síst úr ranni sálfræðilegrar mannfræði (e. psychological anthropology) þar sem áhersla hefur verið á hið huglæga og hið tilfinningarlega. Rannsóknir mannfræðinga á minni og minningum gera tilraun til að afnema þá tvenndarhugsun sem t.d. rannsóknir á hinu pólitíska innan mannfræði hafa oft einkennst af með því að samþætta rannsóknir á huglægum og tilfinningarlegum þáttum við menningarleg ferli og vald. Aðferðafræði þátttökuathugunar býður upp á tæki til náinna rannsókna á þáttum og ferlum sem eru samtímis persónulegir og pólitískir, í fortíð og nútíð. Minni er hér séð sem félagsleg sköpun þar sem minni tengir einstaklinginn og hið persónulega við hið félagslega og hið pólitíska á margvíslegan hátt. Hvað og hvernig fólk endurskapar og nýtir fortíðina vekur upp spurningar um hverju er sleppt, hvað er útilokað og um hvað er þagað, hvað er í húfi að muna og hverju að gleyma? Í erindinu fjalla ég um mannfræði, minni og minningar. Ég byggi erindið á doktorsrannsókn minni á bandarískum sérfræðingum sem sérhæfðu sig í málefnum Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins. Rannsóknin fól í sér flakk á milli tíma og rýma. Stuðst var við sagnfræðilegar heimildir samtímis því að gerð var etnógrafísk þátttökuathugun. Í greiningu og úrvinnslu tók ég sérstaklega til þess hvernig minningar og minni eru sköpuð, bar það saman við aðrar heimildir og setti í félagslegt, menningarlegt og pólitískt samhengi. Í erindinu mun ég fjalla um minni og minningar sem aðferðarfræðilegt tæki til að greina og skilja fortíð og nútíð sem og að greina frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og ókeypis. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 í sal Þjóðminjasafns Íslands.