Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2017 verður haldinn þriðjudagskvöldið 13. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (3. hæð, gengið inn úr portinu).
Aðalfundarstörf hefjast kl. 20:00, sjá nánari dagskrá að neðan. Að þeim loknum, kl. 20:45, munu höfundar tveggja nýrra fræðiverka sem tilnefnd voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2017 kynna bækurnar og sitja fyrir svörum.
Sagnfræðingarnir Anna Agnarsdóttir og Helgi Þorláksson munu kynna tveggja binda verkið Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur mun kynna bók sína Leitin að klaustrunum. Klausturhald á Íslandi í fimm aldir, en auk tilnefningarinnar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlaut Steinunn fyrir bókina Viðurkenningu Hagþenkis.
Dagskrá aðalfundarins er sem hér segir:
1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör ritara og tveggja endurskoðenda reikninga.
5. Önnur mál.
Eftir fundinn verður boðið upp á léttar veitingar.