Næstkomandi þriðjudag, 23. nóvember, heldur Már Jónsson prófessor erindi sitt „Afkynjun erfða um miðja 19. öld: forsendur og framkvæmd“. Fyrirlesturinn er sá síðasti í röðinni „Hvað eru lög?“.
Árið 1847 áttu íslenskir alþingismenn frumkvæði að því að erfðaréttur sona og dætra yrði gerður jafn, í stað þess að sonur fengi tvo hluti á móti einum hlut dóttur, eins og hafði verið hérlendis að minnsta kosti frá lokum 13. aldar. Röksemdir alþingismanna voru á þá leið að jafn erfðaréttur væri í senn sanngjarn og réttlátur, en jafnframt var fullyrt að foreldrum í landinu þætti slík tilhögun betri. Tillagan gekk lengra en ný löggjöf í Danmörku, þar sem foreldrum var leyft að ráðstafa eignum sínum jafnt, en var engu að síður samþykkt í stjórnardeildum í Kaupmannahöfn og varð hluti af tilskipun konungs um erfðir á Íslandi frá 25. september 1850. Í erindinu verður reynt að grafast fyrir um forsendur þessarar hugmyndar í íslensku samfélagi á fyrri hluta 19. aldar en mestu rúmi varið í að greina framkvæmd laganna eftir því sem fram kemur í skiptabókum og öðrum gögnum sem varða dánarbú og ráðstöfun þeirra.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12.05 í Þjóðminjasafni Íslands og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.