Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands harmar að staða verkefnisstjóra við Miðstöð munnlegrar sögu (MMS) – ein af örfáum stöðum innan fagsviðs sagnfræðinnar hjá opinberri stofnun – hafi ekki verið auglýst laus til umsóknar og þar með gerð aðgengileg sagnfræðingum, þegar hún losnaði nú á vordögum. Einnig harmar stjórnin þann niðurskurð sem hefur leitt til þess að nú sé verkefnisstjóri aðeins í hlutastarfi við MMS.
Um leið og stjórn Sagnfræðingafélags Íslands gerir sér grein fyrir erfiðri fjárhagsstöðu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og þeim tímabundnu ráðstöfunum sem yfirstjórn safnsins hefur þurft að grípa til í starfsemi MMS hvetur hún yfirstjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til að standa vörð um markmið MMS eins og þau eru tíunduð í samningi um sameiningu MMS við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn frá 15. mars 2012 og lýtur að fræðilegum metnaði og fagmennsku á sviði munnlegrar sögu. Aðferðarfræði munnlegrar sögu (e. oral history) er og verður æ mikilvægari þáttur í yfirfærslu fortíðar til samtíðar eftir því sem veröld okkar verður flóknari og margþættari.