Meðfylgjandi er yfirlýsing Sagnfræðingafélags Íslands vegna Héraðsskjalasafns Kópavogs.
Sagnfræðingafélag Íslands harmar þá ákvörðun Kópavogsbæjar að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs. Stofnunin sinnir mikilvægu hlutverki bæði við að varðveita skjöl og við að safna skjalasöfnum hins opinbera, félagasamtaka og einstaklinga. Þá gegnir Héraðsskjalasafnið menningarhlutverki í Kópavogi en það hefur stutt við útgáfu ýmissa rita sem tengjast sögu bæjarins.
Að mati Sagnfræðingafélagsins er það varhugaverð þróun að leggja niður héraðsskjalasöfn, líkt og var nýlega ákveðið að gera í tilviki Borgarskjalasafns. Þannig tapast sérfræðiþekking og menningar- og rannsóknarstarfsemi í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Skjalasöfn eru eitt mikilvægasta tólið við rannsóknir á sögunni og munu þessar ráðstafanir vafalítið koma niður á íslenskri sagnfræði og öðrum fræðigreinum hér á landi.
Sagnfræðingafélag Íslands skorar á Kópavogsbæ að endurskoða þessa ákvörðun sína. Jafnframt skorar félagið á önnur íslensk sveitarfélög að fara ekki þessa sömu leið heldur standa vörð um sögu og menningararf með öflugri skjalavörslu og rannsóknum.
Reykjavík, 26. apríl 2023,
stjórn Sagnfræðingafélags Íslands.