Skip to main content

Heimildir á vergangi?

Ákvarðanir um að leggja niður Borgarskjalasafn og Skjalasafn Kópavogs er mikið áhyggjuefni. Þau sjónarmið komu greinilega fram í framsögum frummælenda og í umræðum sem fylgdu í kjölfarið á fundi sem Sagnfræðingafélag Íslands efndi til í Þjóðarbókhlöðunni 27. apríl. Óttast fólk að hér verði ekki látið staðar numið og búast megi við að fleiri héraðssöfn bíði sömu örlög enda byggi ráðagerðin á skýrslu KPMG sem unnin var fyrir sveitarfélögin í landinu. Fannst mörgum hart að sjá fram á að örlög héraðsskjalasafna ráðist af úttekt ráðgjafafyrirtækis sem hefði takmarkaðan skilning á gildi safnanna. Þá óttaðist fundarfólk það fordæmi sem slíkt skapar, þ.e. að búast mætti við að fleiri tegundir safna víða um land bíði sömu örlög. Kom fram í máli frummælenda að með niðurlaggningu safnanna tapist mikilvæg þekking og þjónusta sem innt er af hendi í nærsamfélagi landsmanna. Jafnframt var bent á að hætt væri við að erfiðara yrði að safna saman og halda til haga persónulegum heimildum þjóðarinnar. Mikilvægt væri að fólk ætti kost á að koma slíkum gögnum í örugga varðveislu á sínu svæði og þyrfti ekki að leita langt yfir skammt til að komast í slíkar heimildir. Traust er grundvallaratriði þegar kemur að söfnun persónlegra heimilda en í því sambandi er mikilvægt að söfnin standi fólki sem næst. Þá eru héraðsskjalasöfnin mikilvægar menningarstofnanir og styrkja því byggðina hvert á sínum stað. Það er því brýnt að fagmannlega sé staðið að skjalasöfnun og umsýslu þeirra. Ella sé hætt við að heimildir fari á vergang.

Frummælendur voru:

  • Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands
  • Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður í Kópavogi
  • Njörður Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörður
  • Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands

Ása Ester Sigurðardóttir fór með fundarstjórn.