Skip to main content

Markús Þórhallsson, fráfarandi formaður Sagnfræðingafélags Íslands flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi 16. mars síðastliðinn. Hér má lesa hana í heild sinni.

Nú er ár liðið frá seinasta aðalfundi Sagnfræðingafélags Íslands og í dag ávarpa ég aðalfund í seinasta skipti sem formaður. Fjögur ár hafa liðið hratt en Kórónuveirufaraldurinn setti nokkuð mark sitt á starfsemina um hríð.

Auk mín hafa Brynjólfur Þór Guðmundsson og  Hafdís Erla Hafsteinsdóttir ákveðið að láta af stjórnarstörfum og því verða kosnir þrír nýir stjórnarmenn í dag.

Á seinasta aðalfundi hurfu þau Sverrir Jakobsson og Íris Gyða Guðbjargardóttir úr stjórn.  Í stað þeirra voru kosin í stjórn Arnór Gunnar Gunnarsson og Ása Ester Sigurðardóttir.

Tíundi og ellefti heiðursfélagi Sagnfræðingafélags Íslands í 50 ára sögu félagsins voru kjörnir á aðalfundi félagsins í fyrra.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, flutti ræðu og mælti með kjöri nýju heiðursfélaganna. Anna Agnarsdóttir og Helgi Þorláksson hlutu heiðurinn fyrir mikilvægt framlag sitt til fræða, kennslu og félagsstarf sagnfræðinga. Bæði tóku þau til máls og þökkuðu fyrir sig, en auðvitað eru það þau sem mestar þakkir eiga skyldar.

Sólveig Ólafsdóttir og Sumarliði Ísleifsson voru endurkjörin endurskoðendur reikninga og Markús Þ. Þórhallsson og Pontus Järvstad kjörnir fulltrúar í landsnefnd íslenskra sagnfræðinga. Nefndin vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi Norræna sagnfræðingaþingsins sem haldið verður síðsumars 2025. Stjórn ákvað fyrir skemmstu að viðtakandi varaformaður yrði fulltrúi félagsins í sérstakri þingstjórn.

Málefni Borgarskjalasafns í brennidepli

Stjórn skipti þar með sér verkum á fyrsta stjórnarfundinum 29. mars, þar sem Hafdís Erla Hafsteinsdóttir var kjörin varaformaður, Ragnhildur Anna Kjartansdóttir gjaldkeri og Arnór Gunnar Gunnarsson ritari. Brynjólfur Þór Guðmundsson er ritstjóri fréttabréfs, Ása Ester Sigurðardóttir vefstjóri og Kristbjörn Helgi Björnsson meðstjórnandi.

Nokkrir stjórnarfundir hafa verið haldnir undanfarið ár en algengast er að samskiptin fari fram í sérstökum Facebook hópi stjórnarinnar sem gefist hefur einkar vel. Stjórnin hefur svarað nokkrum erindum og fyrirspurnum á starfsárinu og samþykkt inngöngu nýrra félaga.

Sagnfræðingafélagið sendi frá sér andmæli, fyrst í lok febrúar ög önnur 6. mars vegna fyrirætlana borgarstjórnar Reykjavíkur um að leggja Borgarskjalasafn niður í núverandi mynd og flytja starfsemina til Þjóðskjalasafns.

Borgarráð samþykkti tillöguna sem borgarstjórn ræddi svo á fundi sínum 7. mars. Í seinni yfirlýsingunni var fræðasamfélagið hvatt til viðbragða og borgarstjórn til að fresta málinu uns það hefði hlotið ítarlega og faglega umfjöllun. Allir borgarfulltrúar fengu yfirlýsinguna senda og brugðust þrír til fjórir mjög jákvætt við.

Skemmst er frá því að segja að tillaga borg­ar­stjóra um framtíðar­starf­semi Borg­ar­skjala­safns var samþykkt á borg­ar­stjórn­ar­fundinum með ell­efu at­kvæðum gegn tíu, eftir ítarlegar umræður

Borgarstjórnarflokkur Sjálf­stæðis­flokks­ins lagði til að til­lög­unni yrði vísað frá, en var felld. Breyt­ing­ar­til­laga Sjálf­stæðis­flokks, Sósí­al­ista­flokks, Vinstri grænna og Flokks fólks­ins um að afgreiðslu málsins yrði frestað uns faglegt mat lægi fyrir var einnig felld.

Auk þessa sendi félagið frá sér yfirlýsingu í lok ágúst vegna skipunar menningar- og viðskiptaráðherra skipaði á nýjum þjóðminjaverði án auglýsingar. Þar sögðum við Þjóðminjasafnið vera eitt af höfuðbólum íslenskrar menningarvarðveislu og miðlunar og því bæri að veita þá virðingu að vanda til ráðningar með faglegu ferli.

„Innan íslensks safna- og fræðasamfélags er aragrúi af hæfu fólki sem vill láta gott af sér leiða í þágu íslensks menningararfs. Þegar staða þjóðminjavarðar er laus í fyrsta skiptið á þessari öld er algerlega óviðunandi að veita ekki öllum tækifæri til umsóknar. Stjórnin vill þó árétta að hér er ráðningarferli ráðuneytisins gagnrýnt en ekki sú manneskja sem skipuð var í embættið.“

Í kjölfarið var Arnór Gunnar Gunnarsson kosinn til starfa með fulltrúum Félaga fornleifafræðinga og þjóðfræðinga sem einnig gagnrýndu ráðninguna. Fulltrúarnir báru saman bækur sínar og funduðu með menningar- og viðskiptaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins. 

Hópurinn undirbjó tillögur að breytingum á núgildandi lögum og reglugerðum um Þjóðminjasafn Íslands, sem miða að því að setja skýrar reglur um skipan þjóðminjavarðar. Það er að segja skyldu til þess að auglýsa embættið og hámarksskipunartíma þjóðminjavarðar. Einnig voru undirbúnar tillögur til ráðherra um hvernig efla mætti rannsóknarhlutverk Þjóðminjasafnsins.

Frumvarp ráðherra til breytingar á  Safnalögum reyndist í samræmi við það sem rætt var á fundum menningar- og viðskiptaráðuneytisins með fagfélögunum. Arnór Gunnar ræddi gerð umsagnar um frumvarpið við fulltrúa hinna félaganna en umsagnarfrestur rann út í dag, 16. mars. Arnór hyggst bera álitið undir nýkjörna stjórn og senda inn umsögn fyrir miðnætti.

Söguþing, ungir sagnfræðingar og Ingibjörg

Bókakvöld var haldið 3. maí í samvinnu við ReykjavíkurAkademíuna. Þar fjallaði Benný Sif Ísleifsdóttir um bókina Ættarnöfn á Íslandi eftir Pál Björnsson, Magnús Gottfreðsson fjallaði um bókina Mislingar eftir Erlu Dóris Halldórsdóttur og Katelin Parsons fjallaði um bókina Frá degi til dags eftir Davíð Ólafsson.

Íslenska söguþingið var haldið í fimmta sinn dagana 19. til 21. maí í Stakkahlíð. Hinsegin saga, skjalasöfn, stríð, trúarbrögð, stjórnmál, athafnakonur og fjölmargt fleira kom við sögu. Fjöldi sagnfræðinga tók þátt í þinginu og var ekki annað að heyra en fólk væri ánægt með hvernig til tókst.

Valerie Hansen, prófessor í sagnfræði við Yale háskóla, flutti minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar. Þeim Emil Gunnlaugssyni, meistaranema í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, og Jóni Kristni Einarssyni, meistaranema í Evrópusögu við Columbia-háskóla í New York,  voru veittir styrkir úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar.

Að loknu sumarleyfi efndi Sagnfræðingafélagið til fundar ásamt Fróða – félagi sagnfræðinema föstudagskvöldið 30. september. Fjölmenni var á viðburðinum, sem haldinn var á Gym & tonic á Kexhosteli, og bar yfirskriftina Unga fólkið og sagan.

Gauti Páll Jónsson flutti erindið „Tímarit á 21.öld” þar sem hann fjallaði um ritstjórn og útgáfu tímaritsins Skák og Unnur Helga Vífilsdóttir flutti erindið „Úr kompunni heima í Baðstofuna: Fjarnám, heimsfaraldur og áhrif þeirra á virkni sagnfræðinga í fræðaheiminum”. 

Jón Kristinn Einarsson flutti erindið „Frá ritgerð til bókar: um söguleg skrif í námi og á almennum vettvangi”. 

Instagram-reikningur Sagnfræðingafélagsins fór í loftið í september þar sem ætlunin er að halda uppi skemmtilegri umræðu um sögu og sagnfræði auk þess sem vakin er athygli á starfsemi félagsins.

Að kvöldi kvennafrídagsins 24. október var haldið fjölsótt málþing undir heitinu Ingibjörg, stjórnmálin og kvennahreyfingin. Guðni Th. Jóhannesson forseti var meðal gesta.

Íris Ellenberger fjallaði um kvennaástir, kvennaskóla og kvennahreyfinguna, Ragnheiður Kristjánsdóttir tók fyrir stjórnmálakerfið frá sjónarhóli kvenna, Kristín Ástgeirsdóttir greindi áherslur stjórnmálakonunnar Ingibjargar H. Bjarnason og Erla Hulda Halldórsdóttir kortlagði kvennabaráttuna í þverþjóðlegu samhengi.

Ítrekað þurfti að fjölga sætum og á endanum var fólk búið að taka sér sæti á píanóbekknum í enda rúmgóðs salarins í Neskirkju.

Saga, siðfræði og hamfarir

Mánuði síðar lýstu sagnfræðingarnir Kristín Svava Tómasdóttir og Sólveig Ólafsdóttir því hvernig þær hefðu tekist á við siðfræðileg álitaefni í sínum verkum. Henry Alexander Henrysson siðfræðingur ræddi siðfræðileg álitaefni. Þetta var á mjög áhugaverðu málþingi um sagnfræði með hliðsjón af siðfræði en allnokkrar umræður sköpuðust eftir hvert erindi og eins í lokin.

Fyrra bókakvöld Sagnfræðingafélags Íslands þennan veturinn var haldið í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8 í Reykjavík fimmtudaginn 8. desember. 

Jón Ólafur Ísberg og Kristín Svava Tómasdóttir ræddu saman um bók hennar Farsótt og Sverrir Jakobsson spjallaði við Helga Þorláksson um bókina Á sögustöðum. Að lokum skeggræddu þeir Jón Kristinn Einarsson og Valur Gunnarsson um bók þess síðarnefnda; Hvað ef? og þá grein sögunnar sem spyr hvað hefði getað gerst ef sagan hefði orðið önnur en hún varð.

Um þrjátíu gestir sóttu málþing 25. janúar með yfirskriftinni „Og heimurinn breyttist á augabragði: Hamfarirnar sem skópu Íslandssöguna“.

Um þær mundir voru fimmtíu ár liðin frá upphafi Heimaeyjargossins og Páll Zophoníasson, fyrrverandi bæjartæknifræðingur og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, flutti erindi um það.  Jón Kristinn Einarsson sagnfræðingur fjallaði um Skaftárelda 1783 og Egill St. Fjeldsted sagnfræðingur tíundaði krapaflóðin sem féllu á Patreksfjörð réttum fjörutíu árum fyrr, í janúar 1983.

Fjölmenni var á fundi Sagnfræðingafélags Íslands, Skapadægur sögukennslu 28. febrúar í Neskirkju. Fjórar framsögur voru haldnar og fjöldi fólks tók til máls, spurði spurninga og kom með athugasemdir. 

Þar töluðu þau Bjarni Ólafsson, sögukennari í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Auður Björgúlfsdóttir, formaður félags sögukennara og  Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við HÍ.

Málþingið vakti athygli á stöðu Sögukennslunnar og stjórn ákvað á fundi að halda umfjöllun áfram og beita sér fyrir því að leita lausna.

Seinasti viðburður á vegum fráfarandi stjórnar var vel heppnað bókakvöld í samvinnu við Sögufélag 8. mars, haldið í Gunnarshúsi. Erla Dóris Halldórsdóttir rýndi fimmta og sjötta bindi ritraðarinnar um Landsnefndina fyrri. Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, önnur ritstjóra útgáfunnar, ræddi við hana.

 Margrét Gunnarsdóttir fjallaði um Sýnisbók þess að Ísland er ekki Barbaraland og Hjalti Snær Ægisson sem bjó bókina til útgáfu var til svara. Anna Agnarsdóttir ræddi loks um Ísland Babýlon við höfundinn Árna Snævarr.

Eins og áður sagði hafa nokkrir nýir félagar bæst við en einnig einhverjir helst úr lestinni. Þess vegna hefur stjórnin velt fyrir sér leiðum til að fjölga félögum, einkum með því að hafa beint samband við nýútskrifaða sagnfræðinga. Það er allt í vinnslu. 

Um leið og ég vil þakka stjórn Sagnfræðingafélagsins fyrir vel unnin störf og ánægjulega samvinnu vil ég óska nýrri stjórn og félaginu öllu velfarnaðar um ókomna tíð. Takk fyrir mig.