Skip to main content

Þann 25. janúar sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð í máli nr. 2011/766, þar sem Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni var óheimilt að miðla upplýsingum úr félagatali Kommúnistaflokks Íslands frá 1930-1938, að því marki sem upplýsingarnar höfðu ekki náð áttatíu ára aldri. Úrskurðurinn kemur sér illa við starfshætti sagnfræðinga og aðra fræðimenn, sérstaklega þá 12 fræðimenn sem nýtt höfðu sér félagatalið til rannsókna áður en úrskurðurinn féll.  Að mati stjórnar Sagnfræðingafélags Íslands felur úrskurðurinn í sér óþarflega stranga túlkun á viðkomandi löggjöf og undirstrikar þær ógöngur sem upplýsinga- og persónuverndarlöggjöf eru komnar í með tilliti til rannsókna fræðimanna.
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri, afhenti Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni umrædd gögn árið 2005 í þeim tilgangi að gögnin yrðu nýtt til rannsókna og setti hann engar kvaðir eða takmarkanir á notkun þeirra. Þann 29. júní 2011 voru aðgengismál þessara gagna tekin til umræðu af fulltrúum Persónuverndar og Landsbókasafns Íslands, að frumkvæði þeirra síðarnefndu. Átján mánuðum síðar kemst Persónuvernd loks að ofangreindri niðurstöðu. Ekki er fyllilega ljóst hvers vegna þetta mál var tekið upp né heldur hvers vegna það gerðist jafn seint og raun ber vitni.
Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands mótmælir harðlega þeim seinagangi sem verið hefur á málinu, enda skapar úrskurðurinn margs konar lagalega óvissu fyrir þá sagnfræðinga sem þegar hafa nýtt sér gögnin til rannsókna, en samkvæmt Landsbókasafni Íslands hafa 12 manns rannsakað gögnin frá árinu 2005. Þannig er með öllu óljóst í kjölfar áðurnefnds úrskurðar hvort viðkomandi fræðimönnum sé leyfilegt að birta niðurstöður athugana sinna eða hvort þeir fái áframhaldandi aðgang að þessum gögnum. Þá orkar það tvímælis að nú skuli teknar upp aðgangstakmarkanir að gögnum sem hafa verið öllum aðgengileg í átta ár og munu opnast aftur að fáeinum árum liðnum.
Ennfremur gerir stjórn Sagnfræðingafélag Íslands athugasemdir við túlkun Persónuverndar á þeim lagaákvæðum sem vísað er til í úrskurðinum. Þannig er vísað til upplýsingalaga nr. 50/1996 varðandi afmörkun efnis og takmörkun á aðgengi að viðkomandi gögnum til áttatíu ára, jafnvel þótt þau lög eigi eingöngu við um gögn sem eiga uppruna sinn að rekja til stjórnvalds, en ekki gögn frá einkaaðilum, líkt og Persónuvernd gerir þó grein fyrir í rökstuðningi sínum. Þá vísar Persónuvernd til reglna 712/2008 um tilkynningaskyldu og leyfisskyldu að sækja þurfi um leyfi til notkunar á gögnum til Persónuverndar ef ekki er hægt að leita til viðkomandi einstaklings. Vandséð er hvernig slík leyfisveiting á að virka í framkvæmd varðandi þessi tilteknu gögn. Loks kveður Persónuvernd upp úrskurð sinn í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en tengir rökstuðning sinn á afar ótrúverðugan hátt við upplýsingalög, til að miða lokun gagnanna við 80 ár. Sú tengin felst einkum í mati Persónuverndar á hlutverki Landsbókasafns Íslands, sem sé að varðveita menningararf þjóðarinnar, þrátt fyrir að hlutverk safnsins sé mun margþættara en það, s.s. að vinna að söfnun og rannsóknum á íslenskum handritum.
Í ljósi þessa harmar stjórn Sagnfræðingafélags Íslands úrskurð persónuverndar og telur ástæðu til að óttast um fordæmisgildi hans. Hætt er við að sagnfræðingar megi eiga von á að meirihluti þeirra einkaskjala sem séu yngri en áttatíu ára muni nú verða háð leyfisskyldum aðgangstakmörkunum af hálfu Persónuverndar. Slík gögn eru gjarnan þess eðlis að erfitt er að segja til um fyrirfram hvert innihald þeirra sé og þá hvort þau innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar. Í því samhengi má nefna bréfasöfn og dagbækur, félagatöl ýmissa félagasamtaka sem og fundargerðarbækur. Slík þróun myndi verulega aftra rannsóknum á sögu síðustu áttatíu ára og þar með verða fjölda sagnfræðinga fjötur um fót við störf sín.
 

Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,

Vilhelm Vilhelmsson

formaður