Á nýliðnum aðalfundi félagsins fór formaður þess yfir starfsemina á liðnu ári. Af mörgu var að taka eins og sjá má í ársskýrlsunni hér að neðan.
Félagafjöldi
Félagar eru nú 299 og hefur þeim fjölgað hægt og rólega á árinu. Stjórnin ákvað að senda nýútskrifuðum sagnfræðingum bréf með boð um aðild að félaginu gegn niðurfellingu fyrsta árgjaldsins. Hefur það gengið ágætlega.
Breytingar á stjórn
Formannsskipti urðu á árinu 2008. Hrefna Karlsdóttir hætti formennsku og við tók Íris Ellenberger. Að auki gengu úr stjórn Magnús Lyngdal Magnússon gjaldkeri en í hans stað kom Valur Freyr Steinarsson. Bragi Þorgrímur Gestsson hætti sem meðstjórnandi en Njörður Sigurðsson var kjörin í hans stað en hann hefur haft umsjón með fréttabréfi félagsins. Aðrir stjórnarmeðlimir sátu áfram.
Hádegisfyrirlestrar
Hádegisfyrirlestrar eiga sinn fasta sess í starfsemi félagsins. Síðastliðið vor var yfirskriftin Hvað er varðveisla? og var fundarstjórn í höndum Guðbrands Benediktssonar og Magnúsar Lyngdal Magnússonar.
Það er óhætt að segja að félagið hitti naglann á höfuðið með yfirskriftir vetrarins 2008-2009. Í haust var yfirskriftin Hvað er að óttast? T.a.m. hélt Guðmundur Jónsson erindi um óttann við efnahagskreppur aðeins viku eftir bankahrun og troðfyllti sal Þjóðminjasafnsins af um 120 gestum. Stefán Pálsson var fundarstjóri í haust og sinnti því hlutverki með glæsibrag. Yfirskriftin nú í vor er Hvað er andóf? Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, hélt opnunarfyrirlestur vormisseris þann 20. janúar og lauk hann erindinu í þann mund sem Búsáhaldabylting var að hefjast á Austurvelli. Fundarstjóri vormisseris er Íris Ellenberger. Mörg erindi vetrarins hafa hlotið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum. Víðsjá hefur gert fyrirlestrunum skil og Fréttablaðið einnig. Þó hefur breytt umhverfi á fjölmiðlamarkaði hefur hamlað umfjöllun um fyrirlestrana í prentmiðlum.
Félagsfundir
Þrír félagsfundir voru haldnir á tímabilinu. Síðasta vor skipulögðu Guðbrandur Benediktsson og Guðni Th. Jóhannesson kvöldfund þar sem hádegisfundir félagsins voru ræddir. Tilefnið var útgáfa ritsins Hvað er sagnfræði? sem inniheldur erindi samnefndrar hádegisfundaraðar félagsins. Frummælendur voru Hrefna Róbertsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon.
Annar félagsfundur var haldinn í nóvember um söfnun og varðveislu óprentaðra heimilda. Frummælendur voru Björn Jón Bragason, Njörður Sigurðsson og Unnur María Bergsveinsdóttir.
Loks héldu Sagnfræðingafélagið og Sögufélag sinn árlega bókafund í janúar. Fjórar bækur frá árinu 2008 voru teknar til umfjöllunar en þeir sem fjölluðu um bækurnar voru Árni Daníel Júlíusson, Einar Hreinsson, Helgi Þorláksson og Sigríður Jörundsdóttir.
Húsfyllir var á öllum fundunum og þurfti fólk að hverfa frá bókafundinum.
Söguganga
Félagið fór í sögugöngu um hina hýru Reykjavík með Baldri Þórhallssyni stjórnmálafræðingi. Gafst það vel fyrir og er áformað að gera sögugöngur að árlegum viðburði.
Af hlaðborði aldarinnar
Sagnfræðingafélagið var einn aðstandenda ráðstefnunnar Af hlaðborði aldarinnar ásamt félaginu Matur – saga – menning og ReykjavíkurAkademíunni. Þar var fjallað um sögu íslenskrar matarmenningar. Framkvæmdastjórar voru þær Sólveig Ólafsdóttir og Unnur María Bergsveinsdóttir.
Ályktanir
Stjórn félagsins sendi frá sér tvær ályktanir á árinu. Í júní sendi stjórn félagsins forsætisráðherra bréf þar sem vakin var athygli á þeirra úreltu söguskoðun sem skýrsla nefndar forsætisráðherra um ímynd Íslands byggði á. Stjórnin fékk svar frá Svöfu Grönfeldt, formanni nefndarinnar, sem sagði að ekki væri tilefni til breytinga, þeir sögulegu þættir sem skýrslan vísaði til væru sannir þar eð þeir kæmu fram í hringborðsumræðum og rýnihópum sem skýrslan byggði. Í september skrifaði stjórnin forseta Alþingis þegar í ljós kom að einn þingmaður hafði breytt ræðu sinni efnislega fyrir útgáfu Alþingistíðinda.
Umsagnir
Stjórn félagsins samdi umsagnir um tvenn lagafrumvörp á árinu. Annars vegar í haust um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands sem varðaði aðallega varðveislu á stafrænum göngum sem félagið studdi. Hins vegar í vor um frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn þar sem áformaðar voru viðamiklar breytingar á skipulagi safnsins sem félagið lagðist eindregið gegn.
Strandhögg 2009
Á árinu var ákveðið að endurvekja landsbyggðarráðstefnu Sagnfræðingafélagsins og Félags þjóðfræðinga. Undirbúningur er hafinn fyrir Strandhögg 2009 í samvinnu við Þjóðfræðistofu á Hólmavík og ReykjavíkurAkademíuna. Ráðstefnan verður haldin helgina 12.-14. júní og verður lögð áhersla á að halda erindi á vettvangi, allt frá Konungsvörðu og norður í Krossneslaug. Margir af okkar færustu sagnfræðingum og þjóðfræðingum munu halda erindi, Davíð Ólafsson, Rakel Valgeirsdóttir, Már Jónsson, Guðrún Ása Grímsdóttir, Magnús Rafnsson, Gunnvör Karlsdóttir, Sigurður Gylfi Magnússon o.fl. Skráning er hafin.