Skip to main content

Sagnfræðingafélagið heldur aðalfund sinn laugardaginn 8. september í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík og hefst hann kl. 17:00. Við upphaf fundarins mun Heimir Þorleifsson, sem sagnfræðinga best þekkir sögu skólans, ganga með okkur um hið sögufræga hús. Eins og allir vita eru nú liðin 150 ár frá Þjóðfundinum góðkunna og því þótti við hæfi að halda fundinn á þessum stað. Áætlað er að aðalfundarstörfum ljúki fyrir kl. 19:00, en að honum loknum verður gengið til kvöldverðar.
Dagskrá fundarins verður sem hér segir:
* Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
* Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
* Lagabreytingar.
* Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga.
* Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
* Tilnefning heiðursfélaga.
* Önnur mál.
Fjölmennum! Stjórnin
Kvöldverður á Caruso
Eftir aðalfundinn verður safnast saman á veitingastaðnum Caruso í Bankastræti. Best er að fólk komi þangað milli kl. 19:00 og 20:00 en búið er að taka frá borð fyrir rúmlega 30 manns á efstu hæðinni. Félagsmönnum er velkomið að taka með sér maka eða aðra þá sem þeim tengjast. Þar eð smekkur manna og svengd eru mismunandi, ákvað stjórnin að taka ekki svokallaðan hópmatseðil hússins heldur að hver og einn panti fyrir sig. Úr mörgum réttum er að velja, en súpa dagsins kostar 450 kr., fiskréttir frá kr. 1600, kjötréttir frá kr. 2400, pastaréttir frá kr. 1450, pítsur frá kr. 1100 og einnig er hægt að fá salöt af ýmsum stærðargráðum. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Útdrátt af matseðlinum er að finna á slóðinni www.caruso.is
Sjáumst hress og kát!