Á árinu 2018 brautskráðust fjórir með MA-próf og níu með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Ritgerðirnar eru aðgengilegar í Skemmunni, safni námsritgerða og rannsóknarrita. Sagnfræðingafélagið óskar hinum nýútskrifuðu innilega til hamingju með áfangann og hvetur áhugasama til að skrá sig í félagið.
Gylfi Már Sigurðsson
Hitt húsið: Upphaf, starfsemi og áhrif fyrsta ungmennahússins á Íslandi
Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er saga Hins hússins, fyrsta ungmennahússins á Íslandi, sem tók til starfa í Reykjavík árið 1991. Markmið ritgerðarinnar er tvíþætt. Annars vegar að kanna aðdraganda og uppruna ungmennahúsa á Íslandi og setja í samhengi við hugmyndir um unglingamenningu og breytta samfélagsgerð á síðustu áratugum 20. aldar. Hins vegar að rekja sögu Hins hússins og þess starfs sem þar hefur verið unnið.
Halldór Baldursson
Þegar fylgdarskipið fórst. Aðgerðir yfirvalda á Íslandi vegna strands herskipsins Gautaborgar á Hraunsskeiði 7. nóvember 1718
Vegna styrjaldar milli Danakonungs ríkis og Svíþjóðar sigldu kaupför Íslandsverslunarinnar í skipalestum með herskipafylgd á árunum 1714-1720. Í nóvember 1718 fórst fylgdarskipið Gautaborg við Hraunsskeið í Ölfusi og 174 skipbrotsmenn þurftu að hafa vetursetu á Íslandi. Yfirvöld Íslands stóðu þá frammi fyrir stórum, aðkallandi og óvenjulegum verkefnum. Stærsta og brýnasta verkefnið var að útvega skipverjum húsaskjól og mat. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvernig yfirvöld hér á landi tóku á þessum verkefnum sem leiddi af strandi Gautaborgar.
Kristján Páll Guðmundsson
„Ekki í okkar nafni!“ Mótmæli gegn stríðinu í Írak, 2003–2008.
Ritgerðin fjallar um mótmæli gegn Íraksstríðinu og umræðuna sem fylgdi í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna. Félagslegar hreyfingar sem beittu sér gegn stríðinu með því að skipuleggja mótmælaaðgerðir eru þar í brennidepli. Sýnt er fram á að mótmælahreyfingin gegn Íraksstríðinu hafi haft töluverð áhrif á umræðuna í kringum stríðið og tekist að ýta undir fjölmennar mótmælaaðgerðir, en hafi engu að síður ekki tekist að breyta afstöðu stjórnvalda í málinu.
Rakel Adolphsdóttir
Nýjar konur. Dýrleif, Elín og Kvenfélag sósíalista
Í ritgerðinni er fjallað um stjórnmálastarf kvenna innan Sósíalistaflokks Íslands og Kvenfélags sósíalista. Vegur tveggja kvenna sem störfuðu innan þessara samtaka og tóku þátt í stjórnmálastarfi frá því snemma á þriðja áratug 20. aldar er sérstaklega kannaður. Femínískri hópævisögulegri aðferð var beitt til að kanna ævi og störf Dýrleifar Árnadóttur (1897–1988) og Elínar Guðmundsdóttur (1912–2003). Líf þeirra og stjórnmálabarátta veitir innsýn í líf fjölmargra kvenna.