Þrír fræðimenn héldu erindi á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands 24. nóvember um sagnfræði með hliðsjón af siðfræði. Sagnfræðingarnir Kristín Svava Tómasdóttir og Sólveig Ólafsdóttir lýstu því hvernig þær hefðu tekist á við siðfræðileg álitaefni í sínum verkum og Henry Alexander Henrysson siðfræðingur ræddi siðfræðileg álitaefni.
Í fyrirlestri sínum Fær ekki einu sinni sagnfræðin frið fyrir siðfræði? lýsti Henry þeirri vakningu um siðfræðileg álitaefni sem varð innan Háskóla Íslands eftir hrunið 2008. Hann velti því einnig upp hvað sagnfræðingar ættu að gera og hverjar skyldur þeirra væru innan fags og fræða og gagnvart fortíð og framtíð. Þar ræddi Henry meðal annars mikilvægi þess að fræðimenn séu meðvitaðir um eigin takmarkanir og hleypidóma, þoli og leiti eftir málefnalegri gagnrýni, stundi vönduð vinnubrögð og beri virðingu fyrir umfjöllunarefni sína og þeim sem rannsóknirnar geta haft áhrif á.
Kristín Svava flutti erindið Að segja sögur og nefna nöfn og byggði á rannsóknum sínum á viðkvæmum málefnum; klámsögu og heilbrigðissögu. Kristín Svava ræddi hvernig hún hefði tekið ákvörðun um hvort hún ætti að nafngreina fólk eða ekki í verkum sínum og mismunandi niðurstöður eftir því hvort hún var að skrifa námsritgerð, grein í Sögu eða bækur fyrir almenning. Um sumt svöruðu lögin því hverja mátti ekki nafngreina en í öðrum efnum varð hún að komast að niðurstöðu sjálfu. Meðal þess sem kom til álita var hvort hún væri að gefa þeim rödd sem ekki hafði heyrst í áður og hvort þá væri rétt að nafngreina viðkomandi eða ekki.
Má þetta? nefndist fyrirlestur Sólveigar. Hún sagði að fræðimenn gætu framlengt afmennskun fólks í samfélaginu með því að birta niðurlægjandi ummæli samtímamanna um það, þannig væri hætta á að kúgandi orðræða fengi framhaldslíf. Sólveig tiltók sérstaklega fólk sem hefði verið í viðkvæmri stöðu á sínum tíma. Hún velti einnig upp spurningu sem hún fékk vegna rannsókna sinna; hvort hver sem er mætti fjalla um jaðarsetta hópa, hvort að til dæmis ófatlaður einstaklingur gæti fjallað um fólk með fötlun eða hvort hann hætti þá á að endurvekja gláp fyrri tíma. Sólveig sagði að fræðimenn mættu stunda frelsandi rannsóknir en yrðu að hafa mannúð að sjónarmiði.
All nokkrar umræður urðu eftir hvert erindi og í lokin á þessu mjög svo áhugaverða málþingi.