Fjórði fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 22. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.
Sverrir Jakobsson flytur fyrirlesturinn Jesús Kristur í ljósi kenninga um menningarlegt minni.
Í þessum fyrirlestri verður þróunarsaga hugmynda um Jesúm Krist greind út frá kenningum um menningarlegt minni. Af hverju er myndin af Kristi mismunandi í ólíkum heimildum sem urðu til um hann strax á fyrstu öld? Hvernig þróuðust hugmyndir um hann í framhaldinu og af hverju? Að hvaða leyti getur textafræðin varpað ljósi á þróunarsögu hugmyndarinnar um Krist? Rætt verður hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu en öðrum hafnað. Eftir að kristni hlaut opinbera stöðu innan Rómarveldis breyttist eðli trúarinnar og ríkari krafa var gerð um staðlaða trúarjátningu og samræmingu hugmynda um Krist. Hófst þá klofningur kristinna manna í rétttrúaða og villutrúarmenn sem síðan hefur mótað sögu þeirra.
Sverrir er prófessor í miðaldasögu við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Eftir Sverri liggja ýmsar bækur, þar á meðal Kristur – saga hugmyndar, sem kom út á síðasta ári.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.