Skip to main content

Sigríður Matthíasdóttir, Þorgerður Einarsdóttir og Guðný Gústafsdóttir munu halda fyrirlestur sinn „Frá mæðrahyggju til frjálshyggju. Hugmyndir um opinbera þátttöku kvenna 1900-2010“ í sal Þjóðminjasafns Íslands næstkomandi þriðjudag, 5. apríl kl. 12:05. Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Hvað er kynjasaga?
Í fyrirlestrinum verður leitast við að greina samspilið milli kvenfrelsisbaráttu og birtingamynda kvenleikans í íslensku þjóðfélagi á tveimur ólíkum söguskeiðum, við upphaf  20. aldar og upphaf 21. aldar. Bæði tímaskeiðin eru mikil umbreytingaskeið í sögu kvenfrelsis, og bæði hafa kallað á sterk viðbrögð og andsvar samfélagsins, jafnvel bakslag.
Í fyrirlestrinum verður umræðan um þátttöku kvenna í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum skoðuð og spurt að hvaða leyti sé að finna hliðstæður milli orðræðna í byrjun 20. aldar og í okkar samtíma. Því verður haldið fram að umræðan í byrjun 20. aldar hafi kallað fram mæðrahyggju sem takmarkaði aðgang kvenna að opinberu lífi. Á síðustu áratugum hafi umræðan hins vegar einkennst af frjálshyggjuhugmyndum um meint kynhlutleysi sem engu að síður smættar konur niður í kyn sitt. Tilgáta okkar er sú að þetta séu í báðum tilvikum andsvör við kvenréttindabaráttunni og auknum landvinningum kvenna á opinberu sviði samfélagsins.
Aðgangur er ókeypis og öllum opin meðan húsrúm leyfir.