Skip to main content

Fyrsti fyrirlestur haustsins verður haldinn miðvikudaginn 11. september. Takið eftir að það er óvenjulegur fundardagur og ræðst af utanaðkomandi þáttum. Þetta verður hins vegar í eina skiptið sem brugðið er út af venjulegum fundartíma í haust. Hinir fyrirlestrarnir verða allir á þriðjudegi eins og hefð er fyrir. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Helgi Þorláksson ríður á vaðið og flytur erindið: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri.

Efnið er trú á Þorlák helga Þórhallsson á kaþólskri tíð, í tengslum við Skálholt. Í hverju var hún fólgin, hvernig birtist hún?  Þjóðin hefur verið heldur áhugalítil um efnið í seinni tíð þótt Þorlákur hafi fyrrum skipt landsmenn höfuðmáli, öldum saman. Helga langar að fjalla um af hverju þetta muni vera. Ekki er síst eftirtakanlegt að Þorláki eru gerð heldur lítil skil í Skálholti samtímans.

Helgi Þorláksson er fyrrverandi prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Viðfangsefni hans hafa einkum verið á sviði Íslandssögu fyrir 1700.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.