Skip to main content

Haustið er handan við hornið og það þýðir fyrst og fremst eitt: ný fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands hefst innan skamms. Umfjöllunarefnið að hausti er trú og samfélag í víðum skilningi. Mikil viðbrögð voru við kalli eftir erindum. Tillögurnar sem bárust voru margar og erfitt að gera upp á milli þeirra. Á endanum urðu sjö erindi fyrir valinu.
Fyrsti fyrirlesturinn verður miðvikudaginn 11. september. Það er óvenjulegur fundardagur og ræðst af utanaðkomandi þáttum. Þetta verður hins vegar í eina skiptið sem brugðið er út af venjulegum fundartíma í haust. Hinir fyrirlestrarnir verða allir á þriðjudegi eins og hefð er fyrir.

Helgi Þorláksson ríður á vaðið á óvenjulegum fundartíma, miðvikudaginn 11. september. Helgi flytur erindið: Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri. Þar fjallar hann um trú á Þorlák helga Þórhallsson á kaþólskri tíð og hvernig hann skipti landsmenn höfuðmáli öldum saman.
Hjalti Hugason fjallar um breytingar á útfararsiðum landsmanna á fyrri hluta 20. aldar, í fyrirlestri 24. september. Hann fjallar einkum um greftranir í heima- og heimilisgrafreitum.
Rakel Edda Guðmundsdóttir fjallar um umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900. Rakel Edda vinnur að meistararitgerð um efnið og líkur námi í haust. Fyrirlestur hennar verður 8. október.
Sverrir Jakobsson fjallar 22. október um Jesúm Krist í ljósi kenninga um menningarlegt minni. Hann spyr hvers vegna myndin af Kristi var mismunandi í ólíkum heimildum um hann strax á fyrstu öld og hvernig þær þróuðust í framhaldinu.
Þann 5. nóvember fjallar Þorsteinn Helgason um Tyrkjaránið og spyr hvort það hafi verið trúarlegur viðburður. Hvernig brást sjálfsvitund kristinna við því að færast skyndilega inn í lífheim íslams?
Bryndís Björgvinsdóttir fjallar um álfasteina og aðra bannhelga bletti í náttúru landsins og átrúnað þeim tengdum 19. nóvember. Hún tengir hjátrú á álfa og bannhelgi við náttúruvernd út frá náttúruhverfum viðhorfum manns til náttúru.
Kirkjuvaldsstefnan og trúarleg orðræða á þjóðveldisöld er inntakið í fyrirlestri Haraldar Hreinssonar 3. desember. Hann fjallar um upphaf kirkjustefnunnar og hvort best sé að greina hana með aðferðum persónu- og stofnanasögu eða aðferðum menningarsögu.