Skip to main content

„Það er áhugavert að á Íslandi, sem er oft kallað einhvers konar jafnréttisparadís, áttu konur lengst af undir högg að sækja í stjórnmálum. Sú saga hefur ekki verið rannsökuð til hlítar. Það er eitt af því sem við ætlum að varpa ljósi á,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í kvenna- og kynjasögu.
Erla Hulda vinnur að viðamikilli félags- og menningarsögulegri rannsókn ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur, dósent í sagnfræði, og Þorgerði Þorvaldsdóttur, sérfræðingi hjá Sagnfræðistofnun á konum sem pólitískum gerendum á 20. og 21. öld. Þær rannsaka hvernig konur nýttu sér borgaraleg réttindi sem þær fengu snemma á 20. öld.
„Markmið rannsóknarinnar er að skoða á hvern hátt íslenskar konur nýttu þau borgaralegu réttindi sem þær fengu á fyrstu áratugum 20. aldar, þ.e. kosningarétt og kjörgengi og rétt til menntunar og embætta, til þess að verða fullgildir borgarar í samfélaginu og taka með virkum hætti þátt í að móta íslenskt nútímasamfélag,“ segir Ragnheiður.
Fjallað er um rannsóknina á vef Háskóla Íslands.