Gísli Gunnarsson sagnfræðingur er látinn, 82 ára að aldri. Hann fékkst einkum við hagsögu og sendi frá sér bókina Upp er boðið Ísaland árið 1987 um einokunarverslunina og íslenskt samfélag á árunum 1602 til 1787. Bókin byggði á doktorsrannsókn Gísla við Háskólann í Lundi og vakti mikla athygli.
Gísli lauk MA-prófi í sagnfræði og hagfræði við Háskólann í Edinborg árið 1961. Hann lauk doktorsprófi í hagsögu frá Háskólanum í Lundi 1983. Gísli kenndi í gagnfræðaskóla á árunum 1961 til 1972. Gísli var ráðinn kennari í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1982 og varð prófessor árið 1997.
Á löngum ferli skrifaði Gísli fjölda greina, bókarkafla og bóka. Auk fyrrnefndrar Upp er boðið Ísaland má nefna Fiskurinn sem munkunum fannst bestur og tveggja binda verkið Líftaug landsins um utanríkisverslun Íslendinga þar sem hann var einn höfunda.
Gísli fæddist 19. mars 1938. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sigríði Ingileifu Sigurbjörnsdóttur, þrjár dætur, þær Birnu, Málfríði og Ingileifu og sex barnabörn. Jarðarförin fer fram í kyrrþey en minningarathöfn verður haldin þegar samkomubanni hefur verið aflétt.