Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, þann 23. september, munu sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson og Súsanna Margrét Gestsdóttir flytja fyrstu hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri 2014 undir yfirskriftinni „Að búa til söguskoðun“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.
Kennarar og höfundar kennslubóka um sögu starfa beinlínis við það að miðla sögulegri þekkingu til nemenda. Í því starfi búa þeir við ákveðinn ramma sem þeim er gert að starfa eftir en komast þó aldrei hjá því að taka á einhverjum tímapunkti afstöðu til þess hvers konar söguskoðun þeir vilji halda að nemendum og hvers vegna. Sagnfræðingar hafa gjarnan vísað til kennslubóka í sögu eða kennsluaðferða í skólum landsins til þess að útskýra hvers vegna tilteknar söguskoðanir halda velli þótt þær þyki ekki samræmast nýrri rannsóknum á sviðinu. Öðrum þykja þær bækur eða kennsluaðferðir ekki samræmast þeim gildum sem námið eigi að stuðla að. En hvaða sjónarmið eiga að ráða för við gerð kennslubóka í sögu? Hvað ræður því hvers konar söguskoðun er miðlað í slíkum bókum? Er æskilegt að sögukennsla rækti hjá nemendum eina söguskoðun umfram aðra? Hvernig myndi annars konar sögukennsla, þar sem forðast væri að miðla einni sýn á söguna umfram aðra, líta út?
Gunnar Karlsson hefur skrifað fjölda námsbóka í sögu fyrir öll skólastig, frá grunnskóla upp í háskóla, auk annarra ritstarfa og rannsókna og kennslu á háskólastigi. Súsanna Margrét Gestsdóttir hefur kennt sögu í framhaldsskólum og kennslufræði í HÍ um árabil, unnið með sögukennurum um alla Evrópu að margvíslegum viðfangsefnum og er nú í doktorsnámi í kennslufræði sögu.
Allir velkomnir!