Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, þann 3. desember, mun Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir flytja erindi sem kallast: „Til heiðurs föðurlandinu – í nafni þjóðanna: Endurheimt (þjóð)minja úr dönsku safni.“ Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Hvað eru þjóðminjar?“
Í lýsingu á erindi Önnu Þorbjargar segir:
Eftir miklar málaleitanir var helmingi safns íslenskra miðaldagripa í Þjóðminjasafni Danmerkur skilað til Íslands árið 1930. Margir þessara gripa teljast til helstu dýrgripa þjóðarinnar og eru til sýnis í grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands. Hinn helmingurinn er ennþá varðveittur í Danmörku. Nokkrir gripanna eru einstakir í sinni röð og eru sem slíkir til sýnis í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins danska. Flutningur gripanna til Kaupmannahafnar, endurheimt þeirra til Íslands árið 1930, aðdragandi og áratugalangur eftirmáli þeirra gefa áhugaverða innsýn í síkvikar hugmyndir okkar um gildi minja fyrir ríki og þjóðir.
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.
Með erindi Önnu Þorbjargar lýkur dagskrá þessa misseris hjá Sagnfræðingafélagi Íslands en yfirskrift næstu hádegisfunda félagsins er „Nýjar rannsóknir í sagnfræði.“