Laugardaginn 16. september 2023 stóð Sagnfræðingafélagið fyrir haustferð undir leiðsögn Helga Þorlákssonar. Farið var í Skálholt og á Þingvelli sem eru meðal viðfangsefna í nýlegri bók Helga, Á Sögustöðum.
Lagt var af stað í rútu kl. 11 og farið í Skálholt þar sem Helgi sagði gestum m.a. frá Skólavörðunni, Þorlákssæti, minnisvarða Jóns Arasonar, Þorláksbúð og dómkirkjunni. Að því búnu var snæddur hádegisverður á Hvönn, veitingastaðnum í Skálholti.
Eftir það var haldið að Þingvöllum þar sem Helgi sagði m.a. frá Langastíg, Stekkjargjá og Lögbergi. Að lokum var gengið að Hakinu, þjónustumiðstöðinni ofan við Almannagjá, þar sem fjallað var um ýmis önnur atriði er vörðuðu Þingvelli.
Þrátt fyrir rigningu — og þótt fresta hefði ferðinni um tvær vikur vegna veðurs — gekk haustferðin vel og kann stjórn félagsins Helga Þorlákssyni bestu þakkir fyrir leiðsögnina. Áhugasömum er bent á fyrrnefnda bók hans en þar er auk Skálholts og Þingvalla fjallað um Bessastaði á Álftanesi, Hóla í Hjaltadal, Odda á Rangárvöllum og Reykholt í Borgarfirði.