Skip to main content

6. febrúar er komið að þriðja hádegisfyrirlestri Sagnfræðingafélagsins á þessu ári. Venju samkvæmt verður hann kl. 12:05-12:55 í fyrirlestrasal Þjóminjasafns Íslands. Aðgangur ókeypis og öllum heimill.
Kvikmyndin hefur verið talin eina tímavélin, því að í henni sést, hvað gerðist. En dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem gert hefur margar heimildamyndir, bendir á, að hvort tveggja sé valið úr, efnið, sem myndir eru teknar af, og efnið úr teknu myndunum. Stundum jaðra heimildaþættir því við að vera skáldskapur fremur en sagnfræði. Hann ræðir um ýmsa íslenska heimildaþætti, sem eru í raun myndskreyttir útvarpsþættir, og stefnu Leni Riefenstahl, sem gekk í þveröfuga átt, en hún vildi sýna frekar en segja og taldi að textinn væri helsti óvinur heimildamyndarinnar. Síðan greinir Hannes Hólmsteinn frá eigin reynslu við heimildamyndagerð, en hann vill nú fara bil beggja og ekki ganga eins langt og Riefenstahl. Hann ræðir meðal annars um þættina Maður er nefndur, sem vöktu miklar umræður á sínum tíma, en þar var að frumkvæði Hannesar Hólmsteins talað við 150 roskna Íslendinga um minningar þeirra frá tuttugustu öld. Einnig ræðir Hannes Hólmsteinn um þáttaraðir, sem hann gerði í samvinnu við aðra, átta þætti um tuttugustu öldina og þrjá þætti um Ísland í vestrænu varnarsamstarfi. Jafnframt því sem Hannes Hólmsteinn ræðir um það val, sem ætíð fer fram, þegar heimildamyndir eru gerðar og jafngildir sköpun frekar en frásögn, skýrir hann út ýmis önnur atriði, svo sem tæknibrellur til að auka áhrif boðskapar, þ. á. m. notkun tónlistar og bakhljóðs. Hannes Hólmsteinn telur, að lifandi myndir séu ómetanlegar heimildir um fortíðina, en heimildagildi þeirra verði að meta á gagnrýninn hátt.