Skip to main content

Þann 22. september nk. heldur Sagnfræðingafélag Íslands málfundinn Hugvísindi á krepputímum. Staða, hlutverk og sóknarfæri með þátttöku menntamálaráðherra, Viðars Hreinssonar framkvæmdastjóra ReykjavíkurAkademíunnar og Írisar Ellenberger formanns Sagnfræðingafélagsins. Stefán Pálsson verður fundarstjóri. Ráðstefnan mun opna hina árlegu hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins. Yfirskrift haustmisseris er Hvað er kreppa?
Ýmsar þeirra spurninga sem brenna á hugvísindafólki um þessar mundir eru tengdar samdrætti og hagræðingu í menntakerfinu. Hugvísindafólk spyr sig nú: Verða styrkjaáherslur nýfrjálshyggjunnar enn við lýði eða verður tekin meðvituð ákvörðun um að breyta ríkjandi stefnu? Mun yfirvofandi niðurskurður bitna jafnharkalega á hugvísindum og öðrum fræðasviðum, jafnvel þótt hagsæld síðustu ára hafi skilað sér í takmarkaðri mæli til hugvísinda en annarra greina? Er e.t.v., þvert á móti, ástæða til að efla hugvísindi þar sem það er þeirra hlutverk að skapa þá umræðu og þær hugmyndir sem þarf til að takast á við og skilja það hrun hagkerfis, hugmyndafræði, heimsmyndar, siðferðis og gilda sem er að eiga sér stað? Einnig mætti spyrja hvort öflug hugvísindi geti ekki lagt lið nýrri uppbyggingu, uppbyggingu hins skapandi samfélags?
Á málfundinum Hugvísindi á krepputímum verður hugvísindafólki boðið til beinnar samræðu við menntamálaráðherra. Að loknum stuttum erindum (hámark 10 mínútur) frá frummælendunum þremur verður orðið gefið laust. Gestum gefst þar tækifæri á að varpa fram spurningum og athugasemdum til frummælenda. Málþingið hefst kl. 12.05 og stendur til 13:15 og fer fram í Þjóðminjasafni Íslands.