Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 24. janúar, heldur Sigrún Sigurðardóttir fyrirlestur sinn „Innrömmun. Minningar, ljósmyndir og saga“ í hádegisfyrirlestraröðinni Hvað eru minningar?
Í fyrirlestrinum verður fjallað um horfin augnablik sem endurfæðast á ljósmynd og hvernig ljósmyndir eru notaðar til að varðveita sögur og búa til sögur um einstaklinga, fjölskyldur og þjóðir. Fjallað verður um tengsl minninga og ljósmynda og hvernig minningar hafa verið stofnanavæddar, skilgreindar fyrirfram og jafnvel skilyrtar. Í því sambandi verða mörk heimildaljósmynda, fréttaljósmynda og listljósmynda skoðuð sérstaklega. Fjallað verður ítarlega um sýninguna Fjölskylda þjóðanna (Family of Man) frá árinu 1955 og um tilraunir samtímaljósmyndara til að afbyggja staðlaðar minningar og gefa horfnum augnablikum nýtt líf.
Fyrirlesturinn er öllum opinn og ókeypis. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 í sal Þjóðminjasafns Íslands.