Fjórar nýjar bækur voru teknar fyrir á bókakvöldi Sagnfræðingafélags Íslands fimmtudagskvöldið 25. nóvember. Í bókunum er fjallað um fjölbreytt efni frá síðustu öldum; um stöðu íslensku og samkeppnina við dönsku, galdur og guðlast og sitthvora hliðina í menningarlífi kalda stríðsins.
Ólína Þorvarðardóttir reið á vaðið og fjallaði um tveggja binda verk Más Jónssonar sem nefnist Galdur og guðlast á 17. öld: Dómar og bréf. Hún sagði að bækurnar væru „kærkomin og tímabær viðbót“ við það sem áður hefði verið ritað um þessi mál á Íslandi.
Guðmundur Hálfdánarson sagði að Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir eftir Rósu Magnúsdóttur væri merkilegt framlag til íslenskrar menningar- og stjórnmálasögu og „blessunarlega laus við þá pólitísku slagsíðu sem gjarnan plagar bækur sem þessa“.
Rósa fjallaði síðan um bók Hauks Ingvarssonar Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930 – 1960. Hún sagði að bækur sínar og Hauks sýndu vel hvað stórveldin í kalda stríðinu hefðu verið gjörn á að misskilja hvort annað. Bók Hauks er einstaklega vel heppnuð menningar- og bókmenntasaga, sagði Rósa.
Anna Agnarsdóttir fjallaði um bókina Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu: Um notkun dönsku og erlend áhrif á íslensku. Bókina byggir Kristjana Vigdís Ingvadóttir á BA-ritgerð sinni um sama efni sem varð Önnu tilefni til að spyrja hvernig MA-ritgerðin yrði fyrst þetta væri BA-ritgerðin og vísaði þar til efnistaka höfundar, umfangs verksins og óvenju margra frumheimilda í slíkri smíð.