Þriðjudaginn 8. október heldur Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Matmálstímar og borgarmyndun“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og menningu.
Útþensla byggðar í Reykjavík á 20. öld hafði margháttuð áhrif á daglegt líf í höfuðstaðnum og gat valdið fólki ýmiss konar erfiðleikum. Á árunum 1940 til 1960 var bæjarsamfélagið að taka margvíslegum breytingum og þá gætti ekki síst togstreitu gamalla og nýrra hátta. Meðal þess sem fór úr skorðum hjá fjölda fjölskyldna þegar tók að teygjast á byggðinni var matmálstíminn í hádeginu. Í erindinu verða ræddar ýmsar hliðar þessa máls sem snertir m.a. skipulag bæjarins, samgöngur, stöðu kvenna, vinnutíma, mataræði, frístundir, þjónustu og sveitina í bænum.
Eggert Þór Bernharðsson er aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands. Eftir hann liggja tvö bindi af Sögu Reykjavíkur á árunum 1940-1990 og bókin Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940-1970, auk fleiri verka um höfuðborgina.