Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 6. desember, mun Súsanna Margrét Gestdóttir halda lokaerindið í hádegisfyrirlestraröðinni Hvað er (mis)notkun sögunnar? Erindið ber heitið „Minniháttar misnotkun?“
Engum sem fylgst hefur með fyrirlestraröðinni um misnotkun sögunnar dylst hugur um að sú misnotkun er víðtæk og jafnvel almenn. Í þessu síðasta erindi raðarinnar verður spurt hvort hugsanlega megi tala um minniháttar misnotkun – t.d. hér á landi – sem skipti þá minna máli en gríðarleg misnotkun með grafalvarlegum afleiðingum – eins og sums staðar í útlöndum. Einnig verður rýnt í líklegan tilgang misnotkunar sögunnar og erlend dæmi notuð til að nálgast niðurstöðu um hvers vegna hún á sér einnig stað á Íslandi.
Líkt og ávallt er aðgangur öllum opinn og ókeypis. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og er í sal Þjóðminjasafns Íslands.