Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 11. janúar, hefst ný fyrirlestrarröð Hvað er kynjasaga? Erla Hulda Halldórsdóttir hefur röðina með fyrirlestrinum „Nútímakonan, birtingarmynd hins ókvenlega.“
Hið kvenlega og kvenleiki er lykilhugtak í umræðunni um menntun og samfélagslegt hlutverk kvenna á síðari hluta 19. aldar og er meðal þeirra þrástefja sem greina má í orðræðu blaða og fyrirlestra. Þrátt fyrir það virðist skilgreining á hugtakinu vera óljós. Og það sem meira er, þá er hugtakið ókvenlegt meira áberandi en hið kvenlega. Á þann hátt er andtýpunni eða ómyndinni teflt fram til þess að gefa hinni æskilegu og eftirsóknarverðu ímynd merkingu.
Í fyrirlestrinum er rætt um kvenleika og úrhraks-kvenleika eða ómynd undir lok 19. aldar og tilraunir kvenfrelsiskvenna til þess að draga úr þeim áhrifum sem hinn lítt skilgreindi en heftandi „kvenleiki“ hafði á líf og sjálfsmynd kvenna. Þeirri spurningu er varpað fram hvort konur hafi þurft að afneita kvenleikanum og hætta að vera „konur“, til þess að geta með réttu kallast nútímakonur og krafist þess að standa jafnfætis körlum í lífi og starfi.
Fyrirlesturinn hefst 12:05 í Þjóðminjasafni Íslands og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.