Skip to main content

Þriðjudaginn 21. janúar heldur Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Óregla á almannafæri“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Fyrirlesturinn fjallar um spurninguna hvernig samfélagið heldur uppi reglu á almannafæri. Stuðst verður við rannsóknir á ölvun á almannafæri og áfengisneyslu í veitingahúsum, og beitt kenningum um umlykjandi og útilokandi samfélag. Gerð verður grein fyrir því hvernig eftirlit með opinbera rýminu kom fram í handtökum vegna ölvunar á seinni hluta 20. aldar. Rakið verður hvernig áfengismál breyttust úr lögreglumálum í heilbrigðismál. Þá verður fjallað um fjölgun áfengisveitingaleyfa og hvernig sú breyting hefur skapað nýjar aðstæður fyrir eftirlitið. Þeirri spurningu verður einnig velt upp hvort skipulag borga sé að verða tæki til að hafa áhrif á áfengismálin.
Hildigunnur Ólafsdóttir er sjálfstætt starfandi afbrotafræðingur í ReykjavíkurAkademíunni. Hún er dr. philos. frá Háskólanum í Osló. Hún hefur um margra ára skeið unnið að rannsóknum í afbrotafræði og starfaði við áfengisrannsóknir á geðdeild Landspítalans frá 1980 til 2000. Bók hennar Alcoholics Anonymous in Iceland. From Marginality to Mainstream Culture kom út árið 2000, en auk þess hefur hún birt fjölda greina á sviði áfengisrannsókna og afbrotafræði í fræðiritum og fagtímaritum.