Skip to main content

Þriðjudaginn 7. janúar heldur Sigrún Birgisdóttir arkitekt fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Borgin: rými – flæði – byggð“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Fyrirlesturinn mun fjalla um einkenni hinnar vestrænu borgar út frá byggðamynstri miðkjarna fyrri tíma sem breyst hefur í dreifðar jaðarbyggðir og borgarflæmi nútímans. Fjallað verður um bæði fyrri og seinni tíma hugmyndir er varða formgerð hinnar útópísku borgar og hina margbreytilegu þætti og áhrifavalda á nútíma kjörlendi borgarbúa. Fyrirlesturinn er hluti af fundaröðinni „Hvað er borg?“ sem staðið hefur yfir frá því í september 2002. Samtals verða fjórtán fyrirlestrar fluttir um þetta efni en röðinni lýkur í byrjun apríl.
Sigrún Birgisdóttir er lektor í innanhúss- og landslagsarkitektúr við Buckinghamshire Chilterns University College á Bretlandi. Auk þess starfar hún sjálfstætt og í samstarfi við arkitektastofuna Cherie Yeo Architecture and Design. Hún lauk BA (hons) gráðu í arkitektúr frá Oxford Brookes University árið 1993 og diploma gráðu frá Architectural Association (AA dip) í London árið 2000. Hún hefur einnig sinnt kennslu við Central St. Martin´s í London og starfað á arkitektastofunum Pip Horne Architecture and Design, Pierre d´Avoine Architects og David Connor Architects.