Skip to main content

Sjö sagnfræðingar taka höndum saman í nýrri bók um Pál Briem sem kom út á dögunum. Í bókinni Hugmyndaheimur Páls Briem í ritstjórn Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Sverris Jakobssonar eru fræðimenn með ólíkan bakgrunn fengnir til að skoða framlag Páls þegar hann var virkur í stjórnmálum sem þingmaður, sýslumaður og amtmaður á síðustu árum nítjándu aldar og við upphaf þeirrar tuttugustu.
Háskólaútgáfan gefur bókina út sem er sú 24. í röð Sagnfræðirannsókna – Studia Historica, ritröð fræðirita Sagnfræðistofnunar sem hóf göngu sína árið 1972.

„[M]á segja að í bókinni sé Páll eins konar fundarstaður þar sem fræðimenn beina sjónum að tilteknu efni eða tímabili, hver frá sínu sjónarmiði,“ segir í inngangi bókarinnar. Gunnar Karlsson skrifaði kafla um Pál sem einn af frumkvöðlum frjálslyndrar vinstristefnu og Helgi Skúli Kjartansson skrifar um Pál sem leiðandann sem ekki varð. Erla Hulda Halldórsdóttir skrifar um kvenfrelsi út frá Páli og Elínu tvíburasystur hans. Sverrir Jakobsson skrifar um rannsóknir Páls á Grágás og hvernig hann setti lög miðaldar í samhengi við samtíma sinn. Ragnheiður Kristjánsdóttir skrifar um hugmyndir Páls um framkvæmd kosninga og Vilhelm Vilhelmsson skrifar um viðhorf Páls til leysingar vistarbands. Loks skrifar Guðmundur Jónsson um hugmyndir Páls um félagsmál. Kaflarnir sjö byggja á fyrirlestrum sem höfundar fluttu á málþingi um Pál árið 2016 sem haldið var í samvinnu Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands við afkomendur hans.