Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, 10. janúar, hefst hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem nú ber yfirskriftina Hvað eru minningar? Þorsteinn Helgason mun flytja opnunarerindið „Sameiginlegar minningar og sagnfræði: Systur eða keppinautar?“
 
Í fyrirlestrinum verður fjallað um minni og minningu sem félagslegt fyrirbæri og einkum staldrað við svokallaða „sameiginlega minningu“ (e. collective memory). Hugtakið varð til á fyrri hluta síðustu aldar en komst á flug á seinni hluta hennar. Með hugtakinu er átt við viðhorf til fortíðarinnar og lífsgilda sem ríkjandi eru í hópum af ýmsu tagi. Áhrifamest og mest rannsökuð er sameiginleg minning heilla þjóða og þjóðríkja – þjóðminning. Hún getur birst sem þegjandi samkomulag og lágvært muldur eða valdboð um skyldugar skoðanir. Eitt af verkfærum hennar eru kennslubækur sem notaðar eru í skólum. Fyrirlesarinn, Þorsteinn Helgason, er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hefur m.a. samið og rannsakað slíkar kennslubækur. Hann tekur því dæmi af þeim og af minningum og sögu Tyrkjaránsins sem Þorsteinn hefur einnig rannsakað. Jafnframt  verður í fyrirlestrinum reynt að átta sig á nokkrum tegundum hugtaka sem sprottið hafa upp í skógi minningafræða og rýnt í tengsl, bræðravíg jafnt sem systralag, milli einstaklingsminnis og sameiginlegra minninga, fræðilegrar greiningar og minnisafurða. Gengið verður í smiðju til fræðimanna á þessu sviði á borð við Maurice Halbwachs, Pierre Nora, Aleidu Assmann og Paul Ricœur.
Líkt og ávallt er aðgangur öllum opinn og ókeypis. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og er í sal Þjóðminjasafns Íslands.