Sigurður Líndal prófessor flytur erindið „Andófið gegn Atlantshafsbandalaginu 30. marz“ þriðjudaginn 31. mars kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina Hvað er andóf?
Í lýsingu á erindinu segir:
Í upphafi verður stuttlega rakinn aðdragandinn að stofnun Atlantshafsbandalagsins, inngöngu Íslands og deilum sem fylgdu. Megináherzlan verður lögð á atburði dagana 28.-30. marz 1949, eða frá því að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um að henni yrði fyrir hönd Íslands heimilað að gerast eitt stofnríkja Atlantshafsbandalagsins var lögð fyrir Alþingi þar til hún var samþykkt 30. marz eftir harðvítugar deilur bæði utan þings og innan. Nokkrar óeirðir urðu að kvöldi 29. marz sem mögnuðust í harðvítug átök daginn eftir. Fyrirlesari var á vettvangi framangreinda daga og lýsir eigin reynslu og því hvernig hann skynjaði atburðina. Loks verður leitazt við að bera saman atburðina 30. marz við síðari andófsaðgerðir.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.