Skip to main content


Starf Sagnfræðingafélagsins hefur bæði verið með hefðbundnu sniði á liðnu starfsári og líka harla óvenjulegt vegna kórónuveirufaraldurins.  Starfsárið er nú orðið eitt og hálft ár.
Á síðasta aðalfundi sem haldinn 27. mars 2019 í Viðeyjarsal Þjóðskjalasafns urðu líflegar umræður um endurlífgun landsbyggðaráðstefna, það mál hefur verið rætt, en ekkert hefur orðið af því ennþá.
Björn Reynir Halldórsson doktorsnemi í sagnfræði flutti loks erindi um rannsókn sína „Kvennalistinn. Feminísk ögrun við íslensk stjórnmál“ og Sigurður Gylfi Magnússon prófessor flutti erindi um öndvegisverkefnið „Akademía verður til! Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking“. Góður rómur var gerður að máli þeirra og sköpuðust fjörlegar umræður.

Stjórnin sem tók við

Á aðalfundinum varð talsverð endurnýjun í stjórn félagsins. Kristín Svava Tómasdóttir formaður, Hjördís Erna Sigurðardóttir varaformaður, Rakel Adolphsdóttir vefstjóri og Gunnar Örn Hannesson meðstjórnandi kvöddu öll stjórn eftir giftusamleg störf.
Íris Gyða Guðbjargardóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir héldu áfram sinni stjórnarsetu. Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, Brynjólfur Þór Guðmundsson, Sverrir Jakobsson og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir voru kosin í stjórn og sá sem hér stendur var sjálfkjörinn formaður.
Valur Freyr Steinarsson og Gísli heitinn Gunnarsson héldu áfram sem endurskoðendur reikninga félagsins.
Á fyrsta stjórnarfundi tóku stjórnarmenn að sér verkefni: Sverrir er varaformaður, Anna er vefstjóri, Íris ritari og skjalavörður, Ragnhildur gjaldkeri, Brynjólfur ritstjóri fréttabréfs og Hafdís Erla meðstjórnandi.

Vefsíða félagsins

Unnið hefur verið að lagfæringum á vefsíðu félagsins allt frá því ný stjórn var kjörin og hefur Anna Þorbjörg haft veg og vanda að því. Þau Brynjólfur og aðrir stjórnarmenn hafa skrifað inn á síðuna en mikið betur má ef duga skal. Eins og gestir síðunnar hafa séð hefur hún ekki verið upp á sitt besta undanfarið en það stendur til bóta.
Borgar Þorsteinsson hefur um nokkurra ára skeið greitt fyrir lén félagsins, félagið tekur þann reikning yfir. Félagið leitar að vefstjóra en Dagný Reykjalín vinnur nú að uppfærslu síðunnar. Búist er við að nokkur vinna verði lögð í vefsíðuna með haustinu.
Góð og lifandi vefsíða er afar mikilvæg fyrir félag á borð við Sagnfræðingafélagið. Þegar ný síða verður komin í gagnið er ætlunin að halda áfram að nýta hana t.d. sem fréttamiðil sagnfræðinga eins almennt og mögulegt er.

Bókakvöld

Á tíma síðustu stjórnar tók Sagnfræðingafélagið höndum saman við Sögufélag og ReykjavíkurAkademíuna um að endurvekja bókakvöld.
Það tókst en félögin áttu veg og vanda að bókakvöldi sem var haldið í sal ReykjavíkurAkademíunnar í Þórunnartúni 3. apríl 2019 þar sem fjallað var um fimm ný sagnfræðiverk. Kristín Ástgeirsdóttir skeggræddi um bók Báru Baldursdóttur og Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur, Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi.
Hjalti Hugason tók bók Sverris Jakobssonar, Kristur. Saga hugmyndar til umfjöllunar og  Þorgerður H. Þorvaldsdóttir ræddi um bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar.
Guðný Hallgrímsdóttir talaði um bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur, Skúli fógeti. Faðir Reykjavíkur – saga frá 18. öld og Ragnheiður Kristjánsdóttir um bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Hinir útvöldu. Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 2018.
Fjölmenni var og fjörugar umræður sköpuðust.
Bókakvöld ársins 2020 sem hafði verið undirbúið af mikilli kostgæfni af Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, bókarýnum, höfundum og fleirum varð COVID-19 að bráð. Bókakvöldinu var frestað að vori og blásið af í haust, illu heilli en þar áttu fjórar bækur að verða til umfjöllunar.
Stjórnin vill þakka öllum sem að komu og sérlega þeim Sumarliða Ísleifssyni sem ætlaði að fjalla um bók Árna Snævarrs Maðurinn sem Ísland elskaði. Rakel Adolpsdóttur sem hugðist tala um bók Sigríðar Kristínar Þorgrímsdóttur Jakobína: saga skálds og konu.
Auði Styrkársdóttur sem ætlaði að tala um bókina Hreyfing rauð og græna eftir Pétur Hrafn Árnason og Þorleifi Friðrikssyni sem undirbjó umfjöllun um Híbýli fátæktar eftir þau Finn Jónsson, Sólveigu Ólafsdóttur og Sigurð Gylfa Magnússon.

Ýmis verkefni

Formaður sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis stutt bréf í september eftir ábendingu frá Tryggva Rúnari Brynjarssyni um þingsályktunartillögu vegna skipunar rannsóknarnefndar til að fara yfir starfshætti lögregluvalds, ákæruvalds og dómsvalds í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Innihald bréfsins var að verði af skipun nefndarinnar sé eðlilegt að sagnfræðingur sitji í eða starfi með nefndinni. Engin viðbrögð hafa enn borist frá Alþingi.
Ákveðið var að útbúa handbók stjórnar og er hún í vinnslu. Þar yrði meðal annars sett inn dagatal, hvað á að gera hvenær, undirbúning fyrirlestra, aðferð við erindakall, félagsgjöld, upplýsingar um netföng fjölmiðla og annað sem lýtur að starfsemi félagsins.
Hugmyndin er sú að ný stjórn á hverjum tíma fái tilbúna verkferla af ýmsu tagi. Stofnuð var Facebook síða þar sem samskipti stjórnar fara fram milli formlegra funda og hefur gefist afar vel.
Sögufélag, ReykjavíkurAkademía og Sagnfræðingafélagið tóku á móti allmörgum sagnfræðinemum í Gunnarshúsi 7. febrúar. Markús Þórhallsson, formaður Sagnfræðingafélags Íslands, kynnti starfsemi félagsins.
Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar, greindi frá því sem þar fer fram. Hrefna Róbertsdóttir, forseti Sögufélags, og Brynhildur Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, kynntu starfsemi og útgáfu Sögufélags og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Söguþings 2021, sagði frá því sem til stendur á þessu fjórða söguþingi.

Hádegisfyrirlestrar

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins hafa löngum verið veigamesti liðurinn í starfi þess. Það upplýsist hér með að núverandi stjórn hefur rætt og ákveðið að láta af þeim og blása til nýrrar sóknar fyrir sagnfræðinga og áhugafólk um sögu.
Hádegisfyrirlestrarnir hafa verið haldnir í samstarfi við Þjóðminjasafn en á haustdögum kom fram sú krafa þaðan að félagið greiddi fyrir aðstöðuna. Eftir samningaviðræður náðist lending um tiltölulega ásættanlega niðurstöðu fjárhagslega en þessi breyting ýtti enn frekar undir að í gang færi hugmyndavinna um einhverja nýlundu í starfsemi félagsins.
Hugsanlega mætti halda fleiri bókakvöld, höfundakvöld og aðra viðburði frekar en fyrirlestraröð. Viðburðir þar sem sagnfræðileg ágreiningsmál yrðu reifuð og sérfræðingar tækjust á eru meðal hugmynda stjórnar. Hugmyndir sagnfræðinga eru vel þegnar.
Fyrirlestrar haustmisseris 2019 voru með yfirskriftina Trú og samfélag.  Helgi Þorláksson flutti fyrsta erindið miðvikudaginn 11. September „Þið munið hann Þorlák. Skálholt á kaþólskri tíð og lútherskri“ Þriðjudaginn 24. september talaði Hjalti Hugason um breytingar á útfararsiðum landsmanna á fyrri hluta 20. aldar.
Þann 8. október flutti Rakel Edda Guðmundsdóttir erindið „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Umræður og átök um guðfræði og trú, þjóðkirkju og fríkirkju á síðum íslenskra dagblaða í kringum aldamótin 1900.
Sverrir Jakobsson flutti 22. október fyrirlestur um Jesú Krist í ljósi kenninga um menningarlegt minni.   5. nóvember spurði Þorsteinn Helgason hvort Tyrkjaránið hefði verið trúarlegur viðburður og 19. nóvember talaði Bryndís Björgvinsdóttir um álfatrú. Í síðasta erindi haustsins þriðja desember fjallaði Haraldur Hreinsson um Þorlák helga og kirkjuvaldsstefnuna.
Fyrir hádegisfyrirlestra vorsins 2020 var ákveðið að þemað yrði Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land, í tilefni þess að áttatíu ár eru liðin frá hernámi Íslands og 75 frá stríðslokum.
Skemmst er frá að segja að aðeins tvö erindi voru flutt áður en viðbröðg heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru urðu til þess að fresta þurfti öllum slíkum samkomum.
Illugi Jökulsson flutti fyrsta fyrirlestur vorsins 18. janúar undir yfirskriftinni: „Versti staður á jörðinni? Viðhorf hermanna og sjómanna Bandamanna til Íslands og Íslendinga“.
Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur flutti fyrirlesturinn Og svo kom Kaninn“, þriðja mars þar sem hún fór í saumana á ástandinu og hvaða áhrif það hafði á samfélag samkynhneigðra karlmanna á Íslandi.
Yfirvöld settu á samkomubann, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, 15. mars sem upphaflega frestaði fyrirlestrum en eftir því sem ástandið dróst á langinn var ákveðið að blása fyrirlestraröðina alveg af.
Sú ákvörðun var tilkynnt 2. apríl. Í framhaldinu var ákveðið að halda röðinni áfram á haustdögum en Guðbrandur Benediktsson safnstjóri flutti fyrsta erindi haustsins 29. september síðastliðinn undir yfirskriftinn „Stríð, saga og minjar í Reykjavík“.

Frestun aðalfundar og saga félagsins

Aðalfundi félagsins sem fyrirhugaður hafði verið miðvikudaginn 25. mars var frestað um hríð og loks til hausts vegna faraldursins. Það er í fyrsta og vonandi síðasta sinn í sögu félagsins sem slíkt þarf að gera.
Og talandi um sögu félagsins. Sagnfræðingafélagið þarf að skrásetja sögu undanfarinna tveggja áratuga eða svo. Ákveðið var að Brynjólfur, Hafdís og Markús gengju í verkið en horft verður til sögu félagsins sem út kom snemma á öldinni í bókinni Íslenskir sagnfræðingar.
Gagnaöflun er hafin fyrir það sem gerst hefir síðan, en gögn um starfsemi félagsins eru á víð og dreif. Brynjólfur er að skoða hver heiðursfélagar Sagnfræðingafélagsins hafa verið.  Eins er mat stjórnar að Sagnfræðingafélagið þyrfti að eiga sína Wikipedia síðu.

Gammabrekka á Facebook

Vangaveltur voru uppi um að flytja Gammabrekku á Facebook. Hafdís Erla hafði samband við þau sem stjórna Facebook síðunni Íslenskir sagnfræðingar, sem kom í ljós að var stofnuð af Sagnfræðingafélaginu á sínum tíma.
Nú hefur félagið tekið stjórn síðunnar í sínar hendur með von um að þar geti skapast þær fjörlegu umræður sem forðum voru á Gammabrekku.  Jafnframt er í undirbúningi vinna, að undirlagi Önnu Þorbjargar, þar sem horft er til eflingar og skerpingar innra og ytra hlutverks Sagnfræðingafélagsins
Nokkuð hefur fjölgað í félaginu – en betur má ef duga skal. Við þurfum að ná til ungra og nýútskrifaðra sagnfræðinga og hvetja þá til félagsaðildar og -þátttöku.
Þrátt fyrir undarlega tíma hefur stjórnin unnið sem einn maður að öllum þeim verkefnum og áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir á tímum kófsins. Stundum hefur þurft að taka leiðinlegar og afgerandi ákvarðanir en alltaf höfum við komist að sameiginlegri niðurstöðu sem sátt hefur verið um.
Því þakkar formaður allri stjórninni kærlega fyrir samstarfið og hlakkar til að halda því áfram. Við stefnum á að halda næsta aðalfund að vori 2021, lögum félagsins samkvæmt.

Lokaorð

Sagnfræðingarnir Gunnar Karlsson, Gísli Gunnarsson og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir létust á starfsárinu. Stjórn og félagsmenn Sagnfræðingafélagsins minnast þeirra með þakklæti og hlýju.
Einn stjórnarmaður hverfur úr stjórn félagsins á þessum aðalfundi, hún Ragnhildur okkar Hólmgeirsdóttir gjaldkeri og verður hennar sárt saknað enda frábær í sínu embætti og auðvitað sem manneskja.
Sagnfræðingafélagið fagnar 50 ára afmæli 2021. Ætlunin er öll endurskoðun á störfum félagsins verði í samhengi við afmælisárið. Eins þarf að finna leiðir til að fagna þessum merkisáfanga.
Skrifað þann 28. september 2020,
Markús Þórarinn Þórhallsson
Formaður Sagnfræðingafélags Íslands