Skip to main content

Út er komin bókin Sögustríð eftir dr. Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing. Í bókinni er að finna sjónarhorn höfundar á þróun og stöðu háskólasamfélaga hér á landi og erlendis. Bókin er að hluta til fræðileg sjálfsævisaga Sigurðar Gylfa þar sem hann rekur margvísleg átök innan hins akademíska heims á undangengnum 15 árum. Að auki er að finna tvær greinar eftir hina þekktu bandarísku sagnfræðinga, dr. Peter N. Stearns og dr. Harvey J. Graff, um fræðilegar hugmyndir Sigurðar Gylfa og stöðu félagssögunnar í heiminum í dag.
Kynning á efni bókarinnar fer hér á eftir.

Samræðuhugtakið er aðalviðfangsefni bókarinnar, hvernig samræðunni er stjórnað innan og utan háskólanna og hvaða öfl takast þar á um völd og áhrif. Skoðaðar eru þær leiðir sem háskólasamfélagið fetar þegar hugverk og hugmyndir eru til umfjöllunar. Þar má nefna útgáfustefnur háskólastofnana, kennslu- og fyrirlestrahefðir, umfjöllun um starfsumsóknir í hinum alræmdu dómnefndarálitum og fjölmargt annað sem mótar samræður fræði- og vísindamanna.
Vald, kynjun, pólitík og akademía eru hugtök sem koma til umræðu í bókinni auk ættarbanda, stofnanavæðingar og tengsl hugmynda – efnisflokkar sem skipta máli fyrir framtíð hinna skapandi stétta. Spurt er hvort vettvang þeirra sé að finna í Háskóla Íslands. Að auki eru eftirfarandi hugtök rædd rækilega: Einsaga, póstmódernismi, póststrúktúralismi, einvæðing sögunnar, stórsögur, fjölsögur, yfirlitssögur og póstkólóníalismi; hugtök sem sýna íslensku sögustofnunina og fræðimenn innan og utan ReykjavíkurAkademíunnar í nýju ljósi. Loks er spurt hvort dýnamískt háskólasamfélag í samtímanum sé einhvers virði?
Bókin Sögustríð er gefið út af Miðstöð einsögurannsókna og ReykjavíkurAkademíunni (RA) á tíu ára afmæli hins síðarnefnda, hinn 7. maí 2007. RA sér um dreifingu bókarinnar (ra@akademia.is eða í síma: 562-8561), en viðmiðunarverð hennar er kr. 2900. Bókin er 527 blaðsíður í stóru broti. Í henni er að finna yfirgripsmikinn gagnagrunn um sögustríðið, samantekt um alla þá umræðu sem átt hefur sér stað um hugmyndafræði hugvísinda frá árinu 2000 til loka árs 2006. Sverrir Sveinsson prentari braut bókina um, Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari hannaði bókarkápu og bókin var prentuð hjá Leturprent. Bókin kemur út í Nafnlausu ritröð Miðstöðvar einsögurannsókna og er sú sjötta í röðinni í þeim bókaflokki.
Sigurður Gylfi Magnússon er doktor í sagnfræði, háskólakennari og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.