Skip to main content

Þann 22. október hélt Orri Vésteinsson erindið „Þjóðminjar sem innviðir“. Hér er lýsing á efni fyrirlestursins.
 
Í lýsingu á erindinu sagði:
Á tímum hnattvæðingar og alþjóðahyggju eiga 19. aldar hugmyndir um þjóðminjar æ erfiðara uppdráttar. Slíkar hugmyndir gegndu mikilvægu hlutverki á meðan Íslendingar þurftu að stappa í sig stálinu sem þjóð og nýsjálfstætt ríki, en þær hafa smátt og smátt úrelst og virka núorðið innihaldslausar og stundum vandræðalegar. Saga hugmynda um þjóðminjar er áhugaverð því hún endurspeglar hvernig viðhorf okkar til íslensks þjóðernis og menningararfs hafa tekið breytingum, en niðurstaðan hlýtur að vera sú að slíkar hugmyndir séu barn síns tíma og að þær þurfi að leggja til hliðar. Það þýðir ekki að fornleifar og aðrar minjar um sögu lands og þjóðar hafi þar með glatað hlutverki sínu og gildi. Þvert á móti öðlast þær aukið vægi ef þær eru frelsaðar undan því að vera fyrst og fremst álitnar vitnisburður um þjóðerni. Í erindinu verða færð rök fyrir því að þjóðminjar, í merkingunni minjar sem við berum ábyrgð á sem þjóð, séu eins og hverjir aðrir innviðir – vatnslagnir og vegakerfi – sem eru nauðsynlegir fyrir heill samfélagsins og mælikvarði á menningarstig þess. Þar að auki, öfugt kannski við vegina okkar og heilbrigðiskerfið, eru minjarnar okkar ekki bara okkar mál. Þær eru hluti af sögu mannkyns sem við berum ábyrgð á gagnvart því öllu. Það er okkar að varðveita þær og viðhalda þeim en líka að skilja þær og útskýra hvers vegna þær skipta máli í alþjóðlegu samhengi.