Skip to main content

Kvöldfundur í ReykjavíkurAkademíu 24. okt.
Magnús Þorkell Bernharðsson, lektor í miðausturlandafræðum við Hofstra-háskólann í New York, verður gestur á rabbfundi Sagnfræðingafélags Íslands miðvikudaginn 24. október. Fundurinn er haldinn í samvinnu við ReykjavíkurAkademíuna og fer fram í aðalfundarsal hennar á fjórðu hæð í JL-húsinu, Hringbraut 121. Fundurinn hefst klukkan 20:30.
Gestur okkar mun fyrst fara nokkrum orðum um stöðu miðausturlandafræða í fræðaheiminum, ræða um bakgrunn fræðimanna, bæði fræðilegan og pólítískan, aðstöðu til rannsókna, aðgang að heimildum og þess háttar. Þá mun hann í lengra máli víkja að eigin rannsóknum sem hafa einkum beinst að þjóðerni og þjóðernishreyfingum í þessum heimshluta. Í lokin mun hann fjalla um þróun mála í Miðausturlöndum á undanförnum árum, einnig í ljósi nýliðinna atburða.
Magnús Þ. Bernharðsson lauk BA-próf frá HÍ (1990) með stjórnmálafræði sem aðalgrein og guðfræði sem aukagrein. Hann lauk meistaragráðu í trúarbragðafræðum frá guðfræðideild Yale-háskóla (1992) og stundaði síðan nám í arabísku í Damaskus á Sýrlandi (1992-93). Hann lauk doktorsprófi frá sagnfræðideild Yale-háskóla (1999), en ritgerð hans, sem ber titilinn Reclaiming a Plundered Past: Archaeology and Nationalism in Modern Iraq, 1808-1941, mun koma út hjá University of Texas Press á næsta ári. Eftir hann liggur fjöldi greina og einnig hefur hann ritstýrt bókum og greinaflokkum. Hann hóf störf við Hofstra-háskólann haustið 1999.
Magnús Þ. Bernharðsson er líklega helsti (og kannski eini) sérfræðingur landsins á þessu fræðasviði. Það er því mikill fengur fyrir félagið að fá hann á fund til að ræða mál sem nú eru í brennidepli, einkum vegna þeirra átaka sem nú eiga sér stað í heiminum.
Fjölmennum! Stjórnin.