Sex fræðimenn fjalla um reynslu af fornleifarannsóknum í þéttbýli á málþingi sem Íslandsdeild ICOMOS efnir til. Umfjöllunarefnið er verndun menningarminja í þéttbýli. Málþingið er haldið í Norræna húsinu miðvikudaginn 18. september og hefst klukkan eitt.
„Fornleifarannsóknir í þéttbýli eru í flestum tilvikum vegna framkvæmda. Framkvæmdarannsóknir vekja gjarnan mikla athygli og í tengslum við þær vakna ýmis álitamál er snerta lagaumhverfi og framkvæmd slíkra rannsókna,“ segir í tilkynningu frá Íslandsdeild ICOMOS. „Á málþinginu verða kynntir sáttmálar og samþykktir ICOMOS sem snerta verndun minja í þéttbýli. Í sex erindum verður fjallað um ýmsa þætti sem fengist hefur reynsla af í framkvæmdarannsóknum, sem hafa aðallega verið í Reykjavík. Þar hafa á undanförnum árum farið fram umfangsmiklar framkvæmdarannsóknir sem varpa nýju ljósi á upphaf og þróun byggðar í Reykjavík.“
Dagskrá málþingsins