Annar hádegisfyrirlestur vorsins verður haldinn þriðjudaginn 3. mars. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Yfirskrift fyrirlestraraðarinnar er Blessað stríðið? Ísland sem hernumið land.
Særún Lísa Birgisdóttir þjóðfræðingur flytur fyrirlesturinn „Og svo kom Kaninn“ þar sem hún fer í saumana á ástandinu og hvaða áhrif það hafði á samfélag samkynhneigðra karlmanna á Íslandi. Í skugga ástandsins blómstraði annars konar ástand. Eftir að landið var hernumið opnuðust dyr inn í nýjan heim hjá fjölda manna sem fram til þessa höfðu lifað í einangrun og felum með kynhneigð sína.
Særún Lísa Birgisdóttir er með MA-próf í Þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum horfir hún til þess hvernig hinir ýmsu jaðarhópar hafa birst í sögnum, þjóðtrú og orðræðu, með sérstakri áherslu á samkynhneigða.