Skip to main content


Fimmti fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 5. nóvember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.
Þorsteinn Helgason flytur fyrirlesturinn Var Tyrkjaránið trúarlegur atburður?
Í Tyrkjaráninu 1627 stóðu Íslendingar í fyrsta og eina skipti frammi fyrir ókunnum trúar- og menningarheimi utan kristninnar. Fjögur hundruð manns reyndu þetta á eigin skinni og fjöldi fólks með óbeinum hætti. Atburðirnir vörðuðu alla þjóðina og andleg og veraldleg yfirvöld létu til sín taka.
En hvað var trúarlegt við Tyrkjaránið þegar betur er að gáð? Var herferð af þessu tagi trúarleg, jafnvel heilagt stríð? Var þrælahald sérstaklega tengt íslömskum sið? Hvaða skilning – trúarlegan og veraldlegan – lögðu Íslendingar í herferðina og þá siði og aðstæður sem mættu þeim í Norður-Afríku?
Í þjóðsögunum urðu hellar, skriður, kóngulær og gamlar völvur til bjargar gegn ránsmönnum á Austfjörðum en í herleiðingunni í Algeirsborg bað Ólafur Egilsson „almáttugan guð um góða þolinmæði“ og ekki vanþörf á „því að stór og langvarandi sorg færir sínum herra engin laun utan þau sem vond eru.“ Sum þeirra herleiddu óttuðust þó ekki hinn „mikla sjökórónaða dreka Mahomets“ og urðu eftir í hinni jarðnesku paradís.
Þorsteinn Helgason er dósent emiritus í sagnfræði og sögukennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.