Skip to main content


Gunnar Karlsson sagnfræðingur er látinn, áttatíu ára að aldri. Gunnar hafði mikil áhrif á þróun sagnfræðinnar sem fræðigreinar hérlendis eftir að hann tók til starfa við Háskóla Íslands og var mikilvirkur rithöfundur.
Gunnar lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 1970 og doktorsprófi frá sama skóla 1978. Þá þegar var hann tekinn til við kennslu, fyrst við University College í London árin 1974 til 1976 og við Háskóla Íslands frá 1976. Gunnar varð prófessor 1980 og gegndi þeirri stöðu til 2009.
Fjöldi bóka liggur eftir Gunnar. Þeirra á meðal má nefna doktorsritgerð hans Frelsisbaráttu Suður-Þingeyinga og Jón á Gautlöndum en líka Goðmenningu: stöðu og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslands, Ástarsögu Íslendinga að fornu og hluta af bókum og ritröðum eftir marga höfunda, á borð við Sögu Íslands. Síðustu árin vann Gunnar að ritun bókaflokks um miðaldasögu á Íslandi og höfðu þrjú bindi komið út þegar hann lést.
Um rannsóknir Gunnars má meðal annars lesa í nýlegri grein á Vísindavefnum.
Gunnar fæddist í Efstadal í Laugardal 26. september 1939, sonur Karls Jónssonar og Sigþrúðar Guðnadóttur. Eftirlifandi kona hans er Silja Aðalsteinsdóttir. Gunnar eignaðist þrjár dætur og sjö barnabörn.