Skip to main content

Íslenska söguþingið 2022 einkenndist af mikilli fjölbreytni. Yfir hundrað fyrirlestrar voru fluttir í rúmlega 30 málstofum og á stökum viðburðum. Hinsegin saga, skjalasöfn, stríð, trúarbrögð, stjórnmál, athafnakonur og fjölmargt fleira kom við sögu. Fjöldi sagnfræðinga tók þátt í þinginu og var ekki annað að heyra en fólk væri ánægt með hvernig til tókst.

Sverrir Jakobsson, formaður þingstjórnar, setti þingið fimmtudaginn 19. maí og Valerie Hansen, prófessor í sagnfræði við Yale háskóla, flutti minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar. Hún fjallaði um langsiglingar og landafundi Kínverja, Araba, Afríkumanna og Pólýnesa löngu fyrir landafundi vestrænna manna.

Á föstudeginum fylltist Hamar af sagnfræðingum sem kynntu sér nýjustu rannsóknir kollega sinna á hinum ýmsu sviðum. Þar má meðal annars nefna stórar málstofur, Heimsins hnoss, um söfn efnismenningar, menningararf og merkingu, og aðra um afstöðu Íslendinga til Noregskonunga og stjórnmálabaráttu Sturlungaaldar, Bíbí í Berlín og Kvenna(ó)samstöðu auk fjölda annarra áhugaverðra málstofa.

Tveir styrkir voru veittir úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar á Íslenska söguþinginu. Styrkina hlutu þeir Emil Gunnlaugsson, meistaranemi í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, og Jón Kristinn Einarsson, meistaranemi í Evrópusögu við Columbia-háskóla í New York. Rannsókn Emils fjallar um sjálfsvíg á Íslandi á 18. og 19. öld. Rannsókn Jóns Kristins fjallar um afnám þrælaverslunar í Danmörku.

Styrkhafar, rektor og stjórn sjóðsins. Mynd: Gunnar Sverrisson.

Ísland í seinni heimsstyrjöld, norrænir menn í austurvegi, athafnakonur í sögulegu ljósi kyngervis og kynverundar, sagnfræði innan veggja háskólans og utan og farsóttir í sögulegu ljósi er meðal þess sem var í boði á lokadegi söguþings.

Stærsta málstofa þingsins var um heilbrigðissögu þar sem fjallað var um spænsku veikina, mislinga, sóttvarnir og holdsveiki. Að því loknu sleit Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslenska söguþinginu 2022 með því að telja upp fimmtán ástæður fyrir því hvers vegna við leggjum stund á sagnfræði.