Skip to main content

Nærri 25 árum upp á dag eftir að fyrsta Íslenska söguþingið var haldið í lok maí 1997 er fimmta söguþingið hafið.

Sverrir Jakobsson, formaður þingstjórnar, ávarpaði þinggesti og setti þingið í húsakynnum menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð 1 í Reykjavík þar sem þingið verður háð næstu daga.

Valerie Hansen, prófessor í sagnfræði við Yale háskóla, flutti minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar og var það fyrsti formlegi viðburður söguþings að þessu sinni. Hansen fjallaði um ferðir arabískra, kínverskra, pólinesískra og afrískra sæfara fyrir landafundi evrópskra manna sem hún segir að hafi rutt leiðina fyrir Da Gama, Kólumbus og Magellan.

Rúmlega hundrað fyrirlestrar í yfir þrjátíu málstofum fara fram á Íslenska söguþinginu á föstudag og laugardag. Hér má sjá dagskrána.

Þátttakendur á þinginu eru svo minntir á styrkveitingu úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar að loknum málstofum föstudagsins og hvattir til að mæta í þinglokaveisluna á Jörgensen á laugardagskvöld.

Margar minningar tengjast söguþingum. Erla Hulda Halldórsdóttir vakti mikla athygli á fyrsta degi Íslenska söguþingsins 2022 þegar hún mætti með minjagrip um fyrsta söguþingið.